150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[15:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu um forvarnir og heilsueflingu eldri borgara. Hér á eftir fara svör við þeim spurningum sem voru lagðar til grundvallar umræðunni. Í fyrsta lagi er spurt um gildandi lýðheilsustefnu, hvort hún taki nægilega vel á þeim áskorunum sem eru fyrirsjáanlegar með tilliti til öldrunar þjóðarinnar. Í þeirri stefnu er lögð sérstök áhersla á börn og ungmenni undir 18 ára aldri og því liggur í hlutarins eðli að í þessum fyrsta hluta var áherslan á þá sem yngri eru. En í ljósi öldrunar þjóðarinnar er nauðsynlegt að leggja aukna áherslu á forvarnir og endurhæfingu fyrir alla aldurshópa, þar á meðal aldraða, svo það megi draga úr tíðni og alvarleika lífsstílssjúkdóma og bæta lífsgæði. Á þeim tíma sem ég hef gegnt embætti heilbrigðisráðherra hef ég dregið út nokkur áherslumál til að tryggja bæði meiri skerpu í minni stefnu og framkvæmd hennar og málefni aldraðra og heilbrigðisþjónusta við þann hóp er eitt af þeim.

Hv. þingmaður spyr um það hvort ríki og sveitarfélög vinni nægilega markvisst að heilsutengdum forvörnum eldri borgara um allt land. Þá er því til að svara að við erum ekki alveg á byrjunarreit þarna. Á vegum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtaka og fleiri aðila er núna unnið að þessu markmiði en með aukinni áherslu á forvarnir og heilsueflingu, eins og til að mynda með verkefni Janusar Guðlaugssonar, sem hér er nefnt, er ég sannfærð um að hægt er að gera mun betur. Með hækkandi aldri er mikilvægt að horfa ekki einungis til forvarna í venjulegum skilningi heldur líka til endurhæfingar. Með það að markmiði að efla endurhæfingu hér á landi hef ég falið hópi fólks á vegum heilbrigðisráðuneytisins að móta stefnu á sviði endurhæfingar og það er gert ráð fyrir að drög að þeirri stefnu liggi fyrir nú í vor.

Embætti landlæknis stendur fyrir verkefninu Heilsueflandi samfélag en í samstarfi við sveitarfélög og fleiri gengur verkefnið út á það að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa, þar með talið eldri borgara. Í dag búa um 92% landsmanna í sveitarfélögum sem hafa undirgengist þetta starf heilsueflandi samfélags. Embættið er líka þátttakandi í Evrópuverkefni og samstarfsverkefni sem felur í sér frekari þróun og innleiðingu á sérstöku verkefni sem gengur undir nafninu Fjölþætt heilsurækt fyrir eldra fólk á Íslandi, þannig að frekari þróun heilsueflandi samfélags með tilliti til þarfa eldra fólks er líka liður í því samstarfi.

Hv. þingmaður spyr hvort unnið sé eftir mælanlegum markmiðum og í hverju þau felist. Embætti landlæknis birtir árlega lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi en vísarnir eru safn mælikvarða og ég mæli með því að hv. þingmenn kynni sér það og sérstaklega hv. velferðarnefnd og auðvitað hv. fjárlaganefnd líka. Þetta eru ákveðnir mælikvarðar sem gefa vísbendingu um heilsu og líðan þjóðarinnar og er skipt upp eftir bæði landshlutum, heilbrigðisumdæmum og einnig hægt að brjóta upp eftir sveitarfélögum og stefnt er að því að það sé hægt að gera það enn betur. Þessir mælikvarðar endurspegla að hluta til heilsu og líðan eldri borgara. Í tengslum við verkefnið Heilsueflandi samfélag hjá embætti landlæknis er lögð áhersla á það að sveitarfélögin nýti sér þessa lýðheilsuvísa og önnur gögn, svo sem gátlista Heilsueflandi samfélags sem eru tengdir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem og Landssamband eldri borgara og fulltrúa í samráðsvettvangi um heilsueflandi samfélög og heimsmarkmiðin. Þá er leitast við að tryggt sé að það sé tekið tillit til þarfa og óska eldri borgara, bæði við þróun og innleiðingu starfsins á landsvísu og á vettvangi sveitarfélaganna.

Mig langar líka til að nefna, af því að hv. þingmaður talar um ráðstöfun ríkisfjár inn í heilbrigðiskerfið eða heilbrigðisþjónustuna og nefndi tilteknar tölur, við værum að ráðstafa 2% af heildarfjárhæðinni til forvarna og 98% í það að bregðast við, að mitt mat er þetta sé flóknara en svo. Við höfum verið að leggja sífellt aukna áherslu á það, ekki bara í heilsugæslunni heldur í allri heilbrigðisþjónustunni, að heilsuefling sé partur af heilbrigðisþjónustunni. Það er meira að segja svo að hugmyndafræði heilsueflingar og endurhæfingar er orðið daglegt brauð hjá öllum sem eru líka að sinna sjúklingum í þriðja stigs þjónustu þannig að við getum ekki lengur klippt alveg í sundur og við viljum ekki klippa í sundur það sem heitir hefðbundin heilbrigðisþjónusta og hins vegar heilsuefling eða endurhæfing. Á mínum tíma höfum við lagt til sérstakt fjármagn, 200 milljónir á ári, til að efla þennan þátt heilsugæslunnar, þ.e. að hún geti sinnt sínu starfi sem heilsueflandi vettvangur til þess að sinna forvörnum og fyrirbyggjandi starfi.