150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[15:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Útlit er fyrir að hlutfall eldri borgara af samfélaginu í heild, ef svo má að orði komast, fari mjög hækkandi á næstu árum og gert er ráð fyrir að hlutfall 65 ára og eldri af þjóðinni fari í 20% eftir u.þ.b. 15 ár. Með aldrinum verða breytingar á heilsu fólks sem sporna má við með ýmsum hætti. Margt kemur þar til og þeir sem best til þekkja leggja mesta áherslu á aðgengi að hreyfingu í nærumhverfi, þol- og styrktarþjálfun, góða næringu og félagslega virkni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út vandaða skýrslu um öldrun og heilsu. Í skýrslunni kemur fram að þegar kostnaður hins opinbera í málaflokki eldri borgara var borinn saman við hagnaðinn, ef svo má að orði komast, sem hópurinn skapaði, reyndist hagnaðurinn töluvert meiri. Að því gefnu að hið sama gildi á Íslandi geta ríki og sveitarfélög litið á kostnað við heilsueflingu eldri borgara sem fjárfestingu sem gerir öldruðum kleift að gefa meira og lengur til samfélagsins en annars hefði verið mögulegt.

Fjölgað hefur mjög á biðlistum eftir hjúkrunarrými fyrir aldraða og hefur embætti landlæknis lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni og biðtíminn hefur auk þess lengst. Hinn 1. janúar sl. biðu að meðaltali um 408 manns eftir hjúkrunarrými á landsvísu. Fyrir fimm árum voru það 277. Stöðugt fjölgar því á biðlista eftir hjúkrunarrými og þeir sem bíða finna oft til mikils óöryggis og vanlíðunar. Skilvirka og fljótlegasta leiðin, að mati landlæknis, til að bæta stöðuna er að efla heimaþjónustu, heimahjúkrun og heilsueflingu.

Miðflokkurinn lagði til sérstaka breytingartillögu við fjárlög 2019 um að settar yrðu um 70 millj. kr. til heilsueflingar á landsvísu og til heilsueflingar aldraðra. Því miður var þessi ágæta tillaga felld af stjórnarflokkunum. Það skýtur því óneitanlega skökku við, herra forseti, að stjórnarflokkarnir tali um mikilvægi þessa málaflokks en segja síðan nei við tillögum um fjárveitingar til sama málaflokks.