150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[15:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Hún er tímabær og hún er sígild. Það hafa um margra ára skeið verið lausatök í opinberri stefnumörkun um efri árin. Við tölum gjarnan í vestur en framkvæmum mjög í austur. Íslendingar verða orðnir ríflega 400.000 talsins eftir aðeins 20 ár. Í dag eru undir 50.000 65 ára og eldri en eftir aðeins 20 ár verða þeir orðnir tæplega 90.000 af íbúafjölda á landinu. Erum við með það á hreinu hvað þetta þýðir í náinni framtíð strax eftir 20 ár? 20 ár eru handan við hornið.

Stjórnvöld gera mikið úr því að það sé verið að byggja mikið af hjúkrunarrýmum og það sé lausn jafnvel á stóra og litla vandanum. En því miður breytir það ekki stóru myndinni. Óbreytt stefna og óbreytt hugsun þýðir að við þurfum 2.400 ný rými til viðbótar því sem nú er áætlað næstu 20 árin ef við höldum áfram með óbreyttum hætti. Það er galið og gengur ekki upp. Við höfum ekki mannskap, við höfum ekki peninga til að framkvæma með þeim hætti. Svo er spjótunum beint að Landspítala eins og hann beri sök í þessu máli. Það er alrangt. Við eigum að leggja áherslur annars staðar í samfélaginu miklu fyrr, eins og hv. málshefjandi hefur orðað svo vel hér í dag og hæstv. ráðherra kom raunar inn á líka. Við sjáum vonandi batnandi tíma.

Virðulegur forseti. Nú eru rúmlega fjórir einstaklingar á vinnumarkaði fyrir hvern eldri borgara. Eftir 50 ár verða rúmlega tveir einstaklingar á vinnumarkaði fyrir hvern eldri borgara. Eftir 50 ár verður Ísland gjörbreytt. Staðan verður sú að fjórðungur landsmanna hefur náð 65 ára aldri. Þarna eru miklar áskoranir. Við þurfum með öllum ráðum að stuðla að því að þeir, okkar góðu eldri borgarar, geti leikið við hvern sinn fingur, búið við heilbrigði og hamingju og efnahagslegt öryggi og að samfélagið virki. Það þarf vakningu.