150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa góðu og gegnu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að vera með okkur í henni. Ég ætla ekki að tíunda það sem þegar hefur komið fram, hversu hratt eldri borgurum fjölgar. Mig langar til að minna á átak sem fékk styrk á Suðurnesjum á sínum tíma, 2017, þegar Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur, fór af stað með það verkefni að efla færni eldri borgara og reyna að koma þeim í eins mikla hreyfingu og hugsast getur miðað við líkamlegan styrk þeirra og stöðu. Það er óumdeilt að með því að efla líkamlegan styrk okkar á efri árum erum við betur í stakk búin til að búa lengur heima og við getum kannski jafnvel litið á það þannig að með því að gera það ekki séum við að spara aurinn og fleygja krónunni.

Við höfum verið í vanda sem lýtur að búsetuúrræðum fyrir eldri borgarana okkar sem þurfa á aðstoð að halda en með þessu móti fengju þeir að vera miklu lengur heima. Við höfum horfst í augu við það að einstaklingar sem hafa búið heima hafa liðið næringarskort, þeir hafa ekki haft þann aðbúnað og umönnun sem þeir þurfa á að halda. Það er í okkar valdi hér að efla heilsu þeirra eins og kostur er og ég treysti hæstv. ráðherra sannarlega til þess að taka utan um málaflokkinn því að við erum búin að ræða um hann heilmikið og vilji hennar er skýr í þeim efnum. Ég hvet hana áfram til dáða og vonast til þess að þegar við sem hér erum verðum orðin eldri, þó að við eldumst þokkalega hratt sem á grönum má sjá, verði tekið utan um okkur og þessu fylgt eftir.