150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það mætti taka undir flest, ef ekki allt, af því sem aðrir þingmenn hafa sagt. Mig langar hins vegar að nefna eitt sem hefur lítillega verið rætt og það er andleg heilsa, þ.e. geðheilbrigði. Það er umræðuefni sem hefur í gegnum tíðina ekki komið til kastanna nema með því hugarfari að geðheilbrigði og andleg heilsa sé það sem beri einungis að ræða þegar eitthvað stórkostlegt er að, þegar fólk glímir við tiltekna geðræna sjúkdóma. Þess vegna hefur verið ákveðið tabú í kringum umræðuna um það og almennt ekki talað um andlega heilsu sem hluta af venjulegri heilbrigðisþjónustu fyrr en frekar nýlega. Ég tel að núna á 21. öldinni sem verður flóknari með hverju árinu sem líður verði geðheilbrigði alltaf stærri og stærri þáttur í því að láta sér líða vel til lengri tíma. Það góða er að vegna opnari umræðu í kringum andlegt heilbrigði og geðheilbrigðismál almennt er fólk opnara fyrir því að nýta tækifæri sem það hefur til að bæta líf sitt heilmikið, jafnvel þó að ekkert sérstakt sé að. Jafnvel þó að fólk sé ekki með tiltekna greiningu getur það aukið lífsgæði sín og ég myndi halda lífslengd einnig með því að taka upp á hlutum eins og aukinni virkni eða núvitund og hugleiðslu, hugrænni atferlismeðferð og að nýta sér sálfræðiþjónustu almennt. Hún skipar ekki alveg nógu stóran sess í meðvitund okkar um heilbrigðismál. Ég vil meina að sálfræðiþjónusta sé vanrækt af okkur sem samfélagi sem hluti af hinu almenna heilbrigðiskerfi.

Eftir því sem tíminn líður myndi maður ætla að þekkingu fleygði fram á því hvernig sé hægt að halda sér andlega í góðu formi fram eftir aldri. Þar eru einnig tækifæri sem við megum ekki gleyma (Forseti hringir.) og það er að sjálfsögðu að algjörlega ólöstuðum þeim góðu ræðum sem hér hafa verið fluttar í dag.