150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

sýslumannsembætti.

289. mál
[17:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa umræðu sem er mjög mikilvægt að taka og er ánægð með að hann ræði framtíðarsýn sýslumannsembættanna. Við hv. þingmaður erum að mörgu leyti sammála því að framtíðarsýn mín felst einkum í endurskipulagningu verkefna, að styrkja sýslumannsembættin og hafa þær öflugar þjónustueiningar ríkisins í héraði, skipuleggja þau betur og nýta sýslumannsskrifstofur úti á landi fyrir fjölbreyttari verkefni og hafa þær þannig úr garði gerðar að fólk geti komið þangað með þau erindi sem það á við ríkið, hvar sem það er statt á landinu. Í því eru líka sérstök tækifæri með meiri stafrænni stjórnsýslu.

Þessum markmiðum verður annars vegar náð með breyttri framkvæmd í einstaka málaflokkum þannig að afgreiðslan verði meira miðlæg og sérhæfð fyrir allt landið með auknu framboði stafrænna lausna við framkvæmd starfans og hins vegar með því að skapa embættunum þær aðstæður að þau geti náð fram fjárhagslegri hagræðingu í rekstri og stuðlað að þessari nauðsynlegu framþróun. Breytt verklag mun bæta þjónustu sýslumannsembættanna svo um munar og opna á möguleikana fyrir frekari verkaskiptingu embætta sem við höfum nú þegar sýnt með umbótaverkefnum eins og að færa verkefni til Vestmannaeyja til að efla það embætti eins og hv. þingmaður nefnir sérstaklega.

En hvernig gengur þessi flutningur verkefna? Við höfum freistað þess að fela sýslumannsembættunum aukin verkefni með því að nýta betur þessar afgreiðslustöðvar víða um landið en það hefur ekki skilað nægilegum árangri. Líklegasta skýringin er sú að stjórnsýsluframkvæmd sem einkennist af staðbundnum afgreiðslum embætta og móttöku erinda á pappírsformi enn þá hefur unnið gegn þeirri þróun. Ráðuneytið hefur undanfarin misseri unnið að innleiðingu stafrænna lausna við málsmeðferðina og ber þar helst að nefna sjálfsafgreiðslu vottorða, rafræn eyðublöð og rafrænar þinglýsingar. Eftir því sem innleiðingunni miðar áfram mun verkefnaálagið og verklagið breytast. Það skapast tækifæri fyrir sýslumenn til að takast á við aukin verkefni.

Í lok árs 2018, að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, var líka hafinn undirbúningur að verkefni við endurmat útgjalda embættanna. Verkefnið felst þá í heildstæðri greiningu og endurskipulagningu á starfsemi embættanna með það að markmiði að laga hallarekstur og greina kerfisbundið þessi útgjöld. Annars vegar er um að ræða greiningu á rekstrarþjónustu og verklagi embættanna en hins vegar greiningu á tækifærum til breytinga sem hv. þingmaður spyr einmitt um, þar á meðal innleiðingu stafrænna stjórnsýsluhátta og flutningi verkefna á landsbyggðina. Ég vona að verkefnið muni skila greiningu á tækifærum til breytinga, þar á meðal innleiðingu rafrænna stjórnsýsluhátta og flutningi verkefna til sýslumannsembættanna, og býst við að fá niðurstöðu af því á næstu mánuðum eða á vormánuðum og geti þá hafist strax handa við breytingar og færslu verkefna út á land eða þar sem hægt er að efla og nýta starfsfólkið, eins og hv. þingmaður nefnir, enn betur.

Hv. þingmaður veltir upp möguleikanum á samlegð milli stjórnsýsluembættanna og annarrar starfsemi ríkisins. Það var auðvitað markmið þeirra laga sem sett voru 2014 að sýslumannsembættin yrðu að miðstöðvum stjórnsýslu ríkisins í héraði. Það er markmiðið og er talið hagkvæmt fyrir hina opinberu stjórnsýslu og leiða til aukinna þæginda fyrir fólk. Dæmi eru um þessa skipan hjá einstökum sýslumönnum, t.d. hefur tollgæslan og Vinnueftirlitið leigt aðstöðu hjá sýslumannsembættum og þá er jafnframt komin góð reynsla á það að sýslumenn sinni verkefnum í umboði annarra stofnana eins og Tryggingastofnunar, Sjúkratrygginga Íslands, lögreglustjóraembætta, Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar o.fl. vegna nálægðar við þá borgara. Að mínu mati eru mikil tækifæri fyrir enn frekari samlegð og ekki aðeins milli sýslumannsembættanna heldur jafnframt milli sýslumannsembætta og annarra stofnana ríkisins. Ég hef mikla trú á því að innleiðing stafrænna verkefna og lausna muni einfalda og samþætta þessa þjónustu þegar verkefni tengjast öðrum stofnunum af því að með þeirri vinnu sem er undir fjármálaráðherra, Stafrænt Ísland, erum við að koma öllum samskiptum sem fólk þarf að hafa við ríkið á einn stað. Í því eru gríðarlega mörg tækifæri til að bæta þjónustu við fólk, það geti komið á þessar stöðvar í hvaða erindum sem það er eða sinnt þeim í gegnum smáforrit í símanum. Þegar fólk þarf afgreiðslu hjá sýslumannsembætti geti það farið á hvaða sýslumannsembætti sem er því að með stafrænum lausnum getum við einfaldað og hraðað afgreiðslu mála sem og nýtt hagkvæmnina sem felst í því að færa verkefni og hafa þau staðbundin í landsbyggðarembættum. Ég sé fram á mikil tækifæri í þessari framtíðarsýn sýslumannsembættanna með bæði stafrænum lausnum og flutningi fleiri verkefna á landsbyggðina.