150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

sýslumannsembætti.

289. mál
[17:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góðar undirtektir við hvatningu mína og ég hlakka til að sjá embættin eflast enn frekar. Ég get ekki komið hingað upp án þess að minnast á það að þegar ég lagði þessa fyrirspurn fram fyrir nokkrum mánuðum var óvissa um sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum. Áður en lengra er haldið vil ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hafa nýverið auglýst stöðu sýslumanns í Vestmannaeyjum lausa til umsóknar, og það er enn í ferli. Ég veit til þess að viðamikil verkefni hafa verið flutt til sýslumannsembættanna á undanförnum árum og það hefur tekist vel. Vil ég þar sérstaklega nefna innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar sem embættið á Blönduósi rekur og margt fleira mætti nefna sem er miklu minna í sniðum. Þarna er verið að slá margar flugur í einu höggi, ef svo má að orði komast, halda störfum úti á landi, jafnvel flytja þau út á land, efla embættin og skjóta styrkari stoðum undir þau og nýta starfskrafta starfsfólksins betur. Ég sakna þess að á undanförnum árum hafi ekki gengið betur að færa tiltekin verkefni til embættanna en raun ber vitni. Ég er ekki þar að nefna einhver smáverkefni. Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar er dæmi um stórt og mikið verkefni sem tókst mjög vel og ég hvet hæstv. ráðherra til að gera meira af slíku.

Ég vil taka undir orð þess sem hér var í stólnum síðast (Forseti hringir.) um ónógar fjárveitingar til embættanna. Þau hafa kvartað yfir því að fá ónógar fjárveitingar og nýlega kom (Forseti hringir.) frétt um niðurlagningu mikilvægs starfs á Eskifirði.