150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

sýslumannsembætti.

289. mál
[17:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni sem og öðrum hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu. Ég tek undir það að með nýsköpun og stafrænum lausnum sjáum við mikil tækifæri á að efla embættin og ekki síst bæta þjónustu fyrir fólk. Allir þeir kostir sem hér eru taldir upp, að efla embættin, nýta starfskrafta betur, auka við störf á landsbyggðinni, eru ekki síst til þess fallnir að gefa möguleika á að stytta málsmeðferðartíma þeirra fjölmörgu mála sem bíða á höfuðborgarsvæðinu. Ég myndi því telja að tækifærin væru víða og bind miklar vonir við að geta byrjað á umbótaverkefnum sem koma úr þessari vinnu á þessu ári. Ég ítreka að það er yfirstandandi að endurmeta útgjöld sýslumannsembættanna en eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar var það talið nauðsynlegt. Samt sem áður var bætt við 150 millj. kr. í sýslumannsembættin til að styrkja innviði og stafrænar lausnir.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, ég mun skipa sýslumann í Vestmannaeyjum í næsta mánuði. Ég vil ítreka að ég held að það sé mikill samhugur fyrir þessari framtíðarsýn sýslumannsembættanna, að þetta séu öflugar þjónustueiningar, þjónustustofnanir í héraði sem geti þjónustað fólk hvaðan sem það er af landinu og hvaða mál sem það hefur til umfjöllunar með því að færa verkefni og hafa þau meira staðbundin, nýta betur þá starfskrafta sem við erum með um allt land og ekki síst að efla stafræna innviði sem gefa okkur öll þessi tækifæri og gott betur.