150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

fjármálastofnanir og aðgerðir í loftslagsmálum.

340. mál
[18:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að segja að á vettvangi fjármálaráðherra hefur verið samstarf um loftslagsmál og þar hefur verið út frá því gengið að með alþjóðlegu samstarfi við fjármálaráðherra — þetta er samstarf sem er leitt af Finnum og Chile — þá myndu menn geta náð slagkrafti og lært hver af öðrum. Það sem ég vildi segja sérstaklega varðandi þetta samstarf, sem við höfum ákveðið að vera þátttakendur í frá því 2018, er að það er ótrúlegt að fylgjast með hversu mikill skriðþungi er á þessu samstarfi, hversu mikill vöxtur er í áhuga á öllu því sem þarna er að gerast og birtist síðast á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á síðasta ári sem ég sótti.

Hér er spurt um fjármálafyrirtækin heima fyrir og ég ætla þá að láta þess getið að í eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki koma fram mörg atriði sem tengjast loftslagsstefnu Íslands en leiðarljósin eru stefna Parísarsáttmálans frá 2015 og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Bankasýslan og stjórnarmenn sem og aðrir sem koma að starfsemi fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins skulu fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og leitast við að vera í forystu á sviði góðra stjórnarhátta, viðskiptasiðferðis og samfélagslegrar ábyrgðar.“

Það segir á öðrum stað: „Félagið skal vinna að þeim samfélagslegu markmiðum sem eigandi stefnir að með eignarhaldinu.“ Og svo: „Félagið skal marka sér ítarlega stefnu í umhverfismálum, um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð og birta opinberlega.“

Það er ánægjulegt, m.a. í þessu ljósi, að benda á það að Íslandsbanki og Landsbankinn voru meðal stofnaðila að Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, en markmiðið með stofnun Festu var að auka þekkingu á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og efla getu fyrirtækja til að tileinka sér samfélagslega ábyrgð. Festa er aðili að Evrópusamtökum miðstöðva um samfélagsábyrgð og í gegnum þetta samstarf hafa bankarnir tekið þátt, m.a. í loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og fleira mætti tína til.

Íslandsbanki er sömuleiðis stofnaðili samtaka norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð sem voru stofnuð fyrir ári. Þar er tilgangurinn sá að hvetja til sameiginlegrar forystu og aðgerða í tengslum við heimsmarkmiðin og þar er Parísarsáttmálinn leiðarljós. Ég get haldið áfram að nefna svona frumkvæðismál af hálfu bankanna, þátttöku þeirra í slíku átaki eða samkomulagi. Landsbankinn skrifaði í september undir ný viðmið um ábyrga bankastarfsemi sem gefin voru út af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Þeim áherslum er fylgt eftir af ríkisins hálfu með þessum almennu orðum í eigendastefnunni og kemur alveg til álita að hnykkja á því frekar. Bankarnir hafa báðir sett sér stefnu um samfélagslega ábyrgð þar sem þessu er fléttað saman við starfshætti bankans. Við sjáum þar skýrar áherslur tengdar meginreglum Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, aðgerðir í tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og fjármögnun verkefna með útgáfu grænna skuldabréfa. Þetta held ég að sýni ágætlega að það er metnaður til staðar til að ná árangri í þeim efnum.

Mig langar að nefna dæmi um verkefni frá umliðnum árum, hér frá árinu 2018, sem sýna að menn eru að fylgja þessu eftir í verki. Landsbankinn lánaði til verkefna sem minnkuðu losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með endurnýjun í fiskiskipaflotanum, rafvæðingu fiskimjölsverksmiðju í landi og átaki bænda um endurnýjun votlendis. Íslandsbanki á hinn bóginn ákvað að semja við Votlendissjóð um stöðvun á 200 tonnum af losun gróðurhúsalofttegunda og allt í takt við 15. markmið heimsmarkmiðanna. Ég gæti sömuleiðis nefnt samstarfsvettvang um grænna fjármálakerfi sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið eru þátttakendur í þar sem fjölmörg ríki eru þátttakendur.

Með vísan í allt þetta hefur það ekki komið sérstaklega til álita að setja sérstök lög eða ákvæði umfram það sem gildir í dag á meðan þessi mál eru komin í þennan farveg en það er ástæða til að fylgja þessu eftir. Eins og ég sagði í upphafi máls míns þykir mér einna athyglisverðast að sjá hversu ótrúlega mikil hreyfing er í alþjóðlega fjármálaumhverfinu á sviði loftslagsmála einmitt um þessar mundir.