150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

fjármálastofnanir og aðgerðir í loftslagsmálum.

340. mál
[18:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér kom hv. þingmaður inn á nokkur mikilvæg atriði sem ég held að séu smám saman að raungerast í alþjóðlega fjármálaheiminum og ég vísaði til þess að á fundi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á síðasta ári hefði ég fundið mjög sterkt fyrir þessu. Ég fann fyrir þessu bæði í ræðum, framsögum sem maður hlustaði á þar, t.d. á fundi fjármálaráðherranna. Þangað mættu aðalritari Sameinuðu þjóðanna, forstjóri Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, framkvæmdastjóri OECD, seðlabankastjóri Englands, allir mættir til að ræða um þetta mál. Í máli Carney, seðlabankastjóra á Englandi, kom einmitt fram að við værum að ganga í gegnum breytingu núna sem myndi á endanum verða til þess að það væri venjan að horft yrði til loftslagsmála í öllum lánveitingum og hann sá fyrir sér framtíð þar sem það myndi borga sig að vera í slíkum fjárfestingum. Það yrði meira upp úr því að hafa fyrir fjármálageirann. Það voru viðraðar hugmyndir, meira að segja um að það yrði dregið úr annars konar lánveitingum, t.d. til starfsemi sem væri mengandi, með sérstökum inngripum. Þetta þóttu mér vera mjög stór orð og afar athyglisvert að sjá hversu mikill þungi var í orðum þeirra sem þarna töluðu. Það kom einnig fram á öllum fundum með alþjóðabönkunum, sumum þeirra sem við eigum beina aðild að og öðrum sem hafa áhuga á því að skoða tækifæri á Íslandi, að menn væru fyrst og fremst að leita að tækifærum til að eiga samstarf við Íslendinga eða lána til Íslands eða íslenskra fyrirtækja vegna grænna verkefna. Það var númer eitt, tvö og þrjú. (Forseti hringir.) Þetta var í fyrsta skipti sem ég fann það jafn sterkt og þarna gerðist. Hér er sannarlega verið að hreyfa máli sem er á mikilli hreyfingu.