150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

lýðvísindi.

419. mál
[18:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem ég tel vera merkilega og mikilvæga, sérstaklega í ljósi þess að við stöndum á ákveðnum tímamótum. Hér eru að eiga sér stað gríðarlega miklar tækniframfarir á sviði vísinda og við erum endalaust að uppgötva eitthvað nýtt. Við sjáum það til að mynda að vegna framfara í læknavísindum er lífaldur þjóða að hækka og það er margt sem er að gerast á sviði vísindanna sem hefur áhrif á okkar daglega líf sem við þurfum að huga að. Ég tel því að fyrirspurnin eigi svo sannarlega erindi.

Virðulegur forseti. Ég tel að þátttaka almennings í vísindum á sem víðtækastan hátt sé okkur öllum til heilla. Vísinda- og tækniráð hefur í stefnu sinni lagt mikla áherslu á opin vísindi og miðlun vísindalegra gagna og niðurstaðna til samfélagsins. Það er hlutverk okkar sem störfum á þessum vettvangi, hvort sem það er við stefnumótun um vísindamál eða framkvæmd rannsókna, að virkja og efla þekkingu almennings á vísindastarfi og hvetja til samtals á milli vísindamanna og borgaranna. Hvað lýðvísindi á Íslandi varðar, eins og fram kom í máli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar, er samstarf vísindamanna og almennings mjög mikilvægt og starfsemi Jöklarannsóknafélagsins á Íslandi hefur gengið afar vel og hlotið verðuga athygli, bæði hér heima og út fyrir landsteinana, og eflt til muna jöklarannsóknir á Íslandi. Ég vil líka geta þess að við tökum vel eftir því, í öllu sem tengist Hringborði norðursins, hve mikil eftirspurn er eftir því hjá mörgum hópum að komast nær vísindunum. Það er hlutverk okkar, og sér í lagi þeirra sem starfa við vísindarannsóknir, að koma þeim á framfæri. Ég tel að meiri umræða og betra aðgengi sé til þess fallið að við byggjum stefnumótun frekar á staðreyndum, sem er til heilla, í stað þess jafnvel að gera það ekki, og það er ekki eins gott eins og gefur að skilja.

Það eru mörg dæmi um frjáls félagasamtök, til að mynda félög aðstandenda sjúklinga, sem hafa lagt mikið af mörkum til vísinda með því að afla fjár og hvetja til umræðu um algenga jafnt sem sjaldgæfa sjúkdóma og þannig stutt dyggilega við og hvatt til rannsókna á þeim. Eins og ég sagði í inngangsorðum mínum eru lýðvísindi þjóðum sífellt mikilvægari, bara vegna þeirra kaflaskila sem eru að verða í mörgum samfélögum vegna framfara í vísindum. Við sjáum það með fjórðu iðnbyltingunni að vinnumarkaðurinn er hreinlega að breytast verulega vegna þessa. Í þessu eru mörg tækifæri en við þurfum hins vegar að tryggja að það sé almennur skilningur og almenn þátttaka í þeim nýja vinnumarkaði sem við sjáum. Ég tel að vísindi og allt sem tengist þeim, þannig að gott aðgengi sé að þeim breytingum sem eru að eiga sér stað, séu til heilla.

Virðulegur forseti. Þeirri spurningu var beint til ráðherra hvort setja ætti lífvísindum ramma með lögum eða reglugerðum, líkt og tíðkast í Þýskalandi. Ég tel ekki þörf á sérstökum lagaramma um lýðvísindi á þessari stundu. Hugmyndafræði lýðvísinda byggir á sjálfsprottnum áhuga almennings á að taka þátt í vísindum, oftast í sjálfboðastarfi. Frekari lagasetning en sú sem nú er um vísindastarf, heilindi í vísindum og íslenska háskóla o.s.frv. — ég sé ekki eins og staðan er núna að það verði frekar til þess að efla lýðvísindi. En ég er svo sannarlega tilbúin til að huga að öðru fyrirkomulagi og hef mjög sterka sannfæringu fyrir því að nauðsynlegt sé að opna og auka aðgengi almennings að öllu vísindasamstarfi og að lýðvísindi séu mjög góður vettvangur hvað það varðar. Ég tel því að það geti komið til álita að skipa starfshóp til að útfæra þetta frekar.