Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

lýðvísindi.

419. mál
[18:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé mikilvægt að setja þennan starfshóp á fót til að móta ákveðna stefnu. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við sjáum, varðandi vísindastarf á norðurslóðum, að þátttaka frumbyggja og almennings, og við erum með sannanir og reynslu af því hér á landi, skiptir miklu máli, t.d. varðandi jöklarannsóknir. Að auki tel ég að ákveðið eignarhald á öllu samstarfi, vísindarannsóknum — að því fleiri og því breiðari sem þátttakan er, þeim mun líklegra sé að þær rannsóknir sem eiga sér stað skili árangri.

Ég hef lagt mikla áherslu á það í Vísinda- og tækniráði að ég tel að þessum þætti hafi ekki verið sinnt nægilega vel. Ég hef minnst á það og ítrekað það á fundum Vísinda- og tækniráðs. Vegna þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað, bæði varðandi tæknina, samskiptin og hvernig við nálgumst upplýsingar í dag, þarf þess heldur ráð eins og Vísinda- og tækniráð að vera mjög meðvitað um þessar breytingar og huga að þeirri stefnumótun sem á sér stað. Þrátt fyrir að ég telji að margt gott hafi áunnist nú á síðustu misserum tel ég að við verðum að gera betur vegna þess að mikill ávinningur er í því að auka áhuga barna og ungs fólks á vísindum. Ég tel að íslenskt samfélag geti haft mikið fram að færa vegna þess að við höfum sérstaka sérþekkingu á mörgum sviðum. Ég nefni jöklana og jarðsöguna og hitann og margt annað mætti nefna.

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta mjög spennandi viðfangsefni. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að vekja máls á því og hvetja okkur til dáða hvað það varðar.