Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í hádeginu skall á verkfall; verkfall á leikskólum, verkfall hjá þeim sem annast aldraða, verkfall hjá skúringarfólki. Við höfum búið til þannig kerfi að við segjum á tyllidögum að það sé jafnrétti á Íslandi. Jafnrétti fyrir hverja, fyrir þá sem hafa það gott? Já, en hinum sem hafa það ekki gott er sópað undir teppið. Og hverjir eru það sem þar eru efstir? Jú, konur. Við hljótum að spyrja okkur í allri þeirri jafnréttisbaráttu sem gengið hefur yfir: Hvers vegna í ósköpunum viðgengst þetta ár eftir ár?

Ég spyr þingmenn í velferðar- og félagshyggjuflokkunum sem koma aftur og aftur í þennan stól í stjórnarandstöðu og segja að nú þurfi að bretta upp ermarnar og gera eitthvað fyrir þá sem hafa lægstu launin en komast síðan til valda í borginni og þá snúast hlutirnir við: Hvar er þá allt réttlætið? Er það eðlilegt og er það réttlætanlegt að þeir sem eiga að passa börnin okkar geri það í einhverri félagsvinnu? Metum við það þannig að þeir eigi að fá 250.000 kr. útborgaðar? Hvernig í ósköpunum höfum við fengið það út? Og við ætlum að segja við þetta fólk: Verið á þessum lágmarkslaunum, verið á þessum skítalaunum, það sem eftir er og við skulum sjá til þess að þegar þið farið á eftirlaun hafið þið það enn verr. Hvers lags skilaboð eru þetta inn í framtíðina?

Ætlum við virkilega að senda út þau skilaboð að lífskjarasamningarnir séu fyrir alla? Lífskjarasamningarnir eru ekki fyrir alla. Það er þegar búið að taka öryrkja út. Það er þegar búið að taka eldri borgara út. Það er þegar búið að taka atvinnulausa út og það kemur aldrei til greina að þeir sem eru á félagsbótum fái lífskjarasamninga. En við breytum í prósentum. Við látum þá sem hafa hæst fá mest og sjáum til þess í prósentum að þeir sem þurfa mest á að halda fái minnst.