150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka viðbragðsaðilum á Íslandi en þeir hafa heldur betur staðið í ströngu. Það hefur verið gríðarlegt álag á mjög stuttum tíma og mikið mætt á þeim. Stór útköll hafa verið nánast daglegt brauð síðan í nóvember. Þetta reynir að sjálfsögðu á alla þá sem starfa á þessum mikilvæga vettvangi en einnig á fjölskyldur þeirra og vini. Björgunarsveitir, Rauði krossinn, almannavarnir, lögreglan, slökkvilið og sjúkraflutningamenn auk sjálfboðaliða eiga öll þakkir skildar fyrir þetta framtak og sína óeigingjörnu vinnu. Fórnfýsi er auðvitað orð sem kemur upp í hugann og þakklæti um leið. Auk þess álags sem hefur verið viðvarandi, eins og ég gat um, eru að sjálfsögðu ótalin þau fjölmörgu verk sem síðan aldrei rata í fréttir en þessir aðilar sinna engu að síður eins og þeim einum er lagið.

Á þessum tímum er því mikilvægt að við stöndum saman sem eitt samfélag og mér finnst þau skilaboð sem hafa komið, m.a. frá hæstv. forsætisráðherra, vera mikilvæg þegar þetta allt hefur herjað á okkur. Hlúum að fólkinu okkar sem á um sárt að binda. Stjórnvöld verða að hlusta og tryggja að viðbragðsaðilar og þau sem hafa lent í líkamlegu, andlegu og einhverju eignatjóni um land allt fái viðunandi stuðning. Það tel ég vera ákveðna lágmarkskröfu. Við eigum að tryggja almannaöryggi og í því skyni er brýnt að farið verði yfir þá innviði sem nú eru laskaðir og teknar ákvarðanir um hvernig byggja megi upp á ný þannig að fólkið í landinu okkar geti búið þar sem það kýs að búa án ótta og óöryggis.