150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Fyrst í framhaldi af ummælum hv. síðasta ræðumanns, þó að málið sé ekki til efnislegrar umfjöllunar hér, þá hefur það líka komið fram í umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar að tanngreiningar séu býsna góð aðferð við að meta aldur þótt vissulega séu fyrir hendi skekkjumörk. Ég hef ekki heyrt það að menn hafi almennt verið þeirrar skoðunar að það bæri að falla frá þeirri aðferð, jafnvel þótt nauðsynlegt sé auðvitað að skoða fleiri þætti en eingöngu niðurstöður slíkrar greiningar. Ég held að það sé mikilvægt að halda þessu til haga. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að fari tanngreining fram sé eðlilegt og ekki með neinum hætti óheppilegt að það gerist með þjónustusamningi við Háskóla Íslands eins og verið hefur.

En að öðru. Ég kom hingað upp fyrst og fremst til að taka undir ummæli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hér áðan. Þau veður sem gengið hafa yfir landið að undanförnu og aðrar náttúruvár sem gert hafa vart við sig gera það að verkum að við þurfum vissulega að fara yfir helstu möguleika okkar til að bregðast við aðstæðum og því sem upp getur komið. Ég held að það sé mikilvægt að við förum yfir starfsaðstæður og möguleika viðbragðsaðila til að bregðast við og þeirra aðila sem eiga að hafa eftirlit með einstökum þáttum. En ég vildi ekki síður nefna það að ástand eins og upp hefur komið og hættur sem hafa látið á sér kræla, eins og nýlega og síðustu daga í nágrenni Grindavíkur, vekja auðvitað athygli á því að viðbragð er ekki bara fólgið í mannskap og tækjum til að bregðast við þegar ástand skapast heldur þarf að huga að grundvallarinnviðum, (Forseti hringir.) svo sem á sviði samgöngumála, raforkumála og öðrum slíkum, bæði á því svæði og annars staðar (Forseti hringir.) þar sem náttúran hefur verið að gera vart við sig að undanförnu.