150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku samþykkti Evrópuráðsþingið skýrslu mína um pólitíska fanga í Aserbaídsjan. Hér í þessum sal ræðum við sjaldan um þetta land sem þó er aðili að Evrópuráðinu og mannréttindasáttmála Evrópu rétt eins og við. Allt frá því að Aserbaídsjan gekk í Evrópuráðið fyrir tveimur áratugum síðan hefur ráðið gert þá kröfu að stjórnvöld þar í landi hætti að fangelsa stjórnarandstæðinga, blaðamenn og aðra einstaklinga sem viðra skoðanir sem ekki eru ráðandi öflum að skapi. Og allt frá því hafa asersk stjórnvöld þráast við, neitað að viðurkenna vandann og haldið áfram uppteknum hætti þó að þau hafi sleppt sumum inni á milli, jafnvel til þess eins að fangelsa sama fólkið aftur stuttu síðar.

Forseti. Saga baráttu Evrópuráðsins fyrir frelsi samviskufanga eða pólitískra fanga, eins og við köllum það í skýrslunni, hefur verið þyrnum stráð. Árið 2018 kom í ljós að asersk stjórnvöld höfðu stundað stórfelldar mútugreiðslur til þingmanna Evrópuráðsþingsins á árunum 2012–2014, m.a. til að fella sambærilega skýrslu og mína um pólitíska fanga í Aserbaídsjan. Mikið vatn hefur runnið til sjávar í Evrópuráðinu frá því myrka ári sem sú skýrsla var felld, árið 2013. Sjálfstæð rannsókn átti sér stað, refsiaðgerðir gegn spilltum þingmönnum, innleiðing hagsmunaskráningar og vitundarvakning um spillingarhættuna sem þingmönnum stafar af óbilgjörnum stjórnvöldum.

Samþykkt skýrslu minnar setur kannski ekki endapunkt á þetta stórkostlega vandamál í meðlimaríki og vinaríki okkar, Aserbaídsjan, en ég vil meina og vil vona að hún marki nýja byrjun sem vonandi táknar betri tíð fyrir lýðræðið í Aserbaídsjan.