150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

rafræn birting álagningarskrár.

110. mál
[17:22]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurningarnar. Hvaða misnotkun væri skráning á uppflettingum að koma í veg fyrir? Ég held að það sé kannski réttara að segja að þetta komi til móts við áhyggjur fólks af misnotkun eða spéhræðslu við að launaupplýsingar þess fari eitthvert sem það veit ekki. Svipuð þróun er í gangi varðandi uppflettingar í þjóðskrá. Þetta er varnagli sem kemur oft inn í þessi kerfi til þess að ekki sé hægt að vinna of mikið af upplýsingum út úr þeim, að sem einstaklingur þá eigi maður bara að geta flett upp við og við en þegar kemur að vélrænni vinnslu og því að hamast á þessum skrám þá þurfi að sækja sérstaklega um leyfi til þess og þess vegna eru settar ákveðnar girðingar inn í kerfið til að það sé ekki misnotað. En ég held að ég deili því með þingmanninum að hafa ekki stórkostlegar áhyggjur af þessu, þetta sé eitthvað sem eigi að vera frekar rúmt.

Svo við komum að prentuðu skránni í dag þá er aðgangur að henni einmitt mjög rúmur. Ég mæli bara með því að þingmaðurinn prófi einhvern tímann að mæta til skattsins þegar skrárnar liggja frammi af því að þá er bætt við borðum fram í afgreiðslu og nokkrum stólum við þau og þarna liggur frammi skattskrá allra Íslendinga, öll kjördæmi undir. Þarna sitja oft tíu, tuttugu manns og skiptast á að fletta, sumir fletta upp einum og einum, aðrir eru með útprentaða töflu þar sem eru færðar inn upplýsingar fyrir jafnvel tugi einstaklinga í hvert skipti og ekkert af því er skráð þannig að enginn veit í rauninni hvernig þessi skrá er notuð í dag. Að því leytinu til væri það að færa þetta yfir í rafrænt form með skilgreindum aðgangsstýringum framför frá persónuvernd séð.