150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

rafræn birting álagningarskrár.

110. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að fara út í aðra sálma af því að ég held að það sé mjög gagnlegt í tengslum við þetta mál að ræða launaleyndina. Álagningarskrá sýnir tekjur fólks en ekki laun þess. Fólk getur verið í mörgum störfum, getur verið að þiggja laun héðan og þaðan. Það er ekki sundurgreint í álagningarskrá og verður ekki. Þess vegna er full ástæða til að ræða það hvernig hægt sé að auka gagnsæið á vinnustaðabasis þannig að það sjáist hvaða laun hver hefur þar. Það er eitthvað sem ég reikna með að verkalýðshreyfingin muni beita sér fyrir á næstunni.

Ég held að það sé ansi mildilega farið með þegar talað er um að núverandi fyrirkomulag endurspegli úrelt vinnubrögð. Ég bara man ekki eftir því hvenær ég settist síðast niður til að afla mér gagna og var með hnausþykka gormamöppu í höndunum. (KÓP: Við sagnfræðingar gerum það reglulega.) Já, ég held að ég hafi síðast lent í þessu með ljósrituðu námsmöppurnar í heimspekideildinni í háskólanum, kannski síðasta dæmið.

Varðandi það að vera ekki að setja of háar girðingar þá gildir sama um það og önnur gögn sem við opnum aðganginn að, það þarf að útbúa einhverja skýra og sanngjarna skilmála fyrir þá sem vilja vinna með gögnin, sem í þessu tilviki þurfa jafnframt að tryggja að ákveðnu leyti persónuvernd þeirra sem eru í þessum gagnagrunni. Ég nefndi í flutningsræðu minni að verkalýðshreyfingin gæti unnið heilmikið upp úr þessum gögnum ef hún hefði aðgang að og heimild til, nú eða bara rannsóknarblaðamenn. Það er hægt að skoða ýmislegt og vinna ýmsar fréttir sem ættu erindi fyrir sjónir almennings upp úr álagningarskrá, (Forseti hringir.) aðrar en þessa topplista sem eru birtir í tekjublöðunum og segir okkur ekkert um samfélagið í heild sinni.