150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

stjórn fiskveiða.

118. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, og er það um tilhögun strandveiða. Með mér á frumvarpinu er Guðmundur Ingi Kristinsson.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„1. tölul. 6. mgr. 6. gr. a laganna fellur brott.“

2. gr. kveður á um að lögin öðlist gildi 1. apríl á þessu ári.

Með leyfi forseta ætla ég að vísa beint í greinargerðina þar sem segir m.a. :

Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði brott ákvæði um strandveiðar í lögum um stjórn fiskveiða sem setja þau skilyrði að óheimilt sé að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga og að ráðherra geti með reglugerð bannað strandveiðar á almennum frídögum.

Nokkur reynsla er komin á nýtt fyrirkomulag strandveiða sem innleitt var með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða sem samþykktar voru á Alþingi 26. apríl 2018. Strandveiðikerfið er að mörgu leyti vel heppnuð ráðstöfun. Ég man að ég var varaformaður atvinnuveganefndar þegar við vorum að vinna þetta mál. Það var verið að reyna að vinna það í samráði við strandveiðisjómenn og auðvitað hefðum við viljað hafa það öðruvísi, a.m.k. hefðu þeir viljað hafa það allt öðruvísi og við í Flokki fólksins höfum engan veginn skilið þessar hömlur. Það er í raun með ólíkindum af hverju megi ekki veiða föstudaga, laugardaga og sunnudaga eins og mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að strandveiðisjómennirnir skuli ekki sjálfir fá að velja þá daga sem þeim er úthlutað til veiðanna. Þessi forræðishyggja er ofar skilningi okkar í Flokki fólksins. Veiðunum fylgja umtalsverð umsvif í höfnum og kærkomnar tekjur á landsbyggðinni yfir sumartímann eins og allir vita. Síðustu tvö strandveiðitímabil hefur ekki t.d. tekist að fullnýta úthlutaðar aflaheimildir til strandveiða.

Heildarviðmið afla til strandveiða sumarið 2018 voru 10.200 tonn af óslægðum botnfiski. Alls voru 548 bátar á strandveiðum og varð heildaraflinn 9.396 tonn. Því voru 804 tonn af kvótabundnum tegundum óveidd af þeim heimildum á þeim tíma. Heildarþorskaflinn á tímabilinu var 9.075 tonn. Miðað við aflasamsetningu og meðalverð strandveiðiafla sumarið 2018 má ætla að verðmæti óveidds þorsks hafi numið allt að 200 millj. kr.

Svipað er upp á teningnum þegar tölur fyrir strandveiðitímabilið 2019 eru skoðaðar. Aflaheimildin fyrir strandveiðar var 11.100 tonn, hafði sem sagt vaxið milli ára, af óslægðum botnfiski í kvótabundnum tegundum. Alls voru þá 623 bátar á strandveiðum, þannig að við sjáum að þeim hafði fjölgað á milli ára, og varð heildaraflinn rúm 9.700 tonn. Því voru um 1.350 tonn óveidd í fyrrasumar, í lok tímabilsins 2019. Samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu var strandveiðiaflinn nær eingöngu þorskur en alls veiddust tæp 9.170 tonn af þorski. Verð á honum var ríflega þriðjungi hærri sumarið 2019 en árið áður. Sé varlega áætlað að meðalverð hafi verið 320 kr./kg má reikna með að rúmlega 400 millj. kr. aflaverðmæti í þorski hafi verið óveitt í lok vertíðar 2019. Það er afskaplega dapurt, svo ekki sé meira sagt, því ekki vantar nú viljann hjá strandveiðisjómönnunum okkar til að sækja sjóinn.

Það er umhugsunarefni að ekki takist að nýta aflaheimildirnar sem úthlutað er til strandveiða. Margar breytur hafa haft hér áhrif og vega náttúrulegar sveiflur sjálfsagt þyngst í þeim efnum. Þar má nefna fiskgengd og veðurgæftir. Í gildandi lögum um stjórn fiskveiða eru líka lagðar verulegar takmarkanir á veiðigetu strandveiðiflotans. Þar má nefna að einungis má veiða ákveðna daga í viku eins og ég var að nefna hér áðan og það er í maí, júní, júlí og ágúst. Við erum að tala, virðulegi forseti, um 12 daga í mánuði, þrjá daga á viku, og strandveiðisjómennirnir sjálfir mega ekki ráða því hvaða þrjá daga vikunnar þeir nýta sér. Það er engu líkara en að þeir eigi þá bara að geta ráðið því hvernig viðrar þessa daga sem þeir mega veiða. Við höfum nú hingað til ekki haft það afl að geta ákveðið hvernig gefur á sjóinn á morgun. Hugsanlega væri besta veðrið á föstudegi, laugardegi eða sunnudegi. Við komum hér fram með frumvarp sem er ekki til neins annars en að hagræða og koma til móts við strandveiðisjómenn okkar og það kostar ríkissjóð ekki eina einustu krónu heldur gæti það hugsanlega orðið til þess að aflaheimildir, sem þó er úthlutað til veiðanna, myndu nýtast og um leið myndi það náttúrlega vera okkur öllum í hag, ekki satt? Ég myndi segja að það væri verulega til bóta og þó að þetta sé lítið skref í sanngirnisátt hvað þetta varðar, þá skiptir það máli. Og ég ítreka að það er alveg með ólíkindum hversu mikil forræðishyggja er í þessum háa sal, hvernig við látum þegnana sitja og standa endalaust jafnvel þó að það væri jafnvel stundum betra að þeir fengju að standa þegar þeim sýndist svo í stað þess að við neyddum þá til að setjast. Í þessu tilviki er ég ekki enn þá búin að átta mig á því af þessum 12 dögum í mánuði, 48 dagar yfir allt sumarið, alla vertíðina, 48 daga, hvers vegna í veröldinni við setjum það ekki til strandveiðisjómannanna sjálfra að ákveða hvaða daga þeir ætli að nýta til veiða.

Ég tel að það ætti ekki að vera erfitt að fá þetta mál samþykkt í þinginu, bara alls ekki. Ég held að við getum öll verið sammála um að við viljum gjarnan að a.m.k. þeim aflaheimildum sem úthlutað hefur verið til veiðanna verði náð og að strandveiðisjómenn geti nýtt að fullu þá daga sem við höfum af mikilli sparsemi úthlutað þeim. Það verði ekki válynd veður sem hamli því og komi í veg fyrir að þeir geti sótt sjóinn.

Málið fer til hv. atvinnuveganefndar og spurningin snýst alltaf um það hvað sú góða nefnd gerir, eftir að við höfum fengið umsagnir og umsagnaraðila til að fylgja málinu eftir fyrir nefndinni, hvort það fái að koma hér í þinglega meðferð. Eins og ég hef ítrekað bent á þá er það ekki sama og skrifað þrátt fyrir að svo verði, þrátt fyrir að málin séu góð og jafnvel kosti ekki neitt og það þurfi ekki einu sinni að vera að rífast um að maður sé að þenja bogann og eyða peningum skattborgaranna án þess að við hefðum efni á því. Í þessu tilviki erum við væntanlega að auka fé í ríkissjóði með því að gefa strandveiðisjómönnum betri kost á því að fullnýta aflaheimildir sínar og veiða allan aflann. Ef föstudagar, laugardagar og sunnudagar eru góðu dagarnir í vikunni þá teljum við flutningsmenn þessarar tillögu og vonandi flestallir aðrir að það sé bara algjörlega sjálfsagt að nýta þá daga og virða þekkingu sjómanna og þeirra reynslu af sjósókn.

Ég vona sannarlega að málið fái að koma til 2. umr. og 3. umr. og verði síðan samþykkt og það verði gert áður en ný vertíð hefst í sumar þannig að þessir dagar, þó mér finnist fáir vera, geti nýst að fullu af þeim sem eru bærir til að meta hvenær best gefur á sjóinn og þeim sem þurfa mest á því að halda.