150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

stjórn fiskveiða.

118. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og líka fyrir að hafa fengið að deila störfum í atvinnuveganefnd með honum, það var akkúrat þegar við vorum að fjalla um þetta mál. En þegar við erum að tala um fortakslaust eða ekki fortakslaust myndum við sennilega hagnast á því. Þá er það bara byggt á því að bæði þessi ár frá því að við tókum þessa nýju reglu upp sem nú gildir um strandveiðar þá hefur aflanum ekki verið náð og í fyrra munaði hvorki meira né minna en 1.350 tonnum sem voru óveidd í lok tímabilsins sem var metið allt að 400 millj. kr. að andvirði.

Hvort þessir dagar séu valdir sérstaklega vegna þess að þá séu fiskmarkaðir ekki starfandi, þ.e. föstudaga, laugardaga og sunnudaga, ég verð að viðurkenna vanþekkingu mína hvað það varðar. Ég hefði hins vegar haldið að ef afli bærist að landi þá myndi kerfið náttúrlega virka þannig að tekið yrði á móti honum og þá yrðu markaðir ekki lokaðir. Ég vildi a.m.k. trúa því.

Þetta er í raun eitt lítið skref eins og hv. þingmaður bendir á. Það er svo margt sem við þyrftum að líta á. Eru þessir mánuðir endilega bestu mánuðirnir; maí, júní, júlí? Ágúst, september, hvaða mánuðir henta best og hvar? Eins og ég kom að í framsögu minni áðan eru veður válynd, alltaf, og ekki á vísan að róa. Við gætum hugsanlega haft þetta sex mánuði. Ég og Flokkur fólksins viljum auka enn frekar við strandveiði og gefa mönnum enn frekari kost á því að sækja sjóinn á þennan hagkvæma hátt, sem er sannarlega ekki sá sem mun raska lífríkinu í kringum landið að mínu viti. Ég held að þetta séu þær heilnæmustu veiðar sem við getum boðið upp á og ólíkt öðru sem við höfum stundum kallað bara arðrán. Þetta er fyrsta skrefið og ég þakka fyrir umræðuna, mér finnst hún góð.