150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

stjórn fiskveiða.

118. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að strandveiðin er eitthvað það dýrmætasta sem við getum gefið til samfélagsins, út í litlu sjávarplássin, út í brothættu byggðirnar sem við horfum á hrynja allt í kringum landið eftir að framsalið var sett á kvóta og eftir að veiðiheimildirnar hurfu úr byggðarlögum. Við horfum líka upp á það að nánast lítið sem ekkert er um nýliðun í strandveiðinni að því leyti til að erfitt er að komast þar að. Ég lít meira á þetta þannig akkúrat þessa daga, þessa mánuði og þennan tíma sem búið er að úthluta, að setja það í fangið á strandveiðimönnunum sjálfum. Til dæmis þegar ekki næst afli þá er það ekki síst fyrir það að ekki var hægt að sækja sjóinn, eins og t.d. í hittiðfyrrasumar þá komu bara hreinlega þeir tímar marga daga í röð að ekki var hægt að fara á sjó. Það var hreinlega ekki hægt. Það er ekki eins og þeir geti tekið dagana með sér og fært þá yfir, þeir týnast bara. Það verður þá líka kannski þess valdandi að ef við njörvum þetta svona niður ákveðna á daga þá reyna þeir frekar að freista þess að fara út í válynd veður sem ekki eru sérstaklega til þess fallin að sækja sjóinn. Þeir hafa þekkinguna, reynsluna, getuna og vissuna, vita miklu meira um það en ég. En þarna erum við virkilega, eins og ég segi, að stíga eitt lítið skref, sanngirnisskref, í áttina að einhverju sem er gott. Að minnsta kosti líður mér þannig með það.