150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:32]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef óskað eftir að vera settur á mælendaskrá um þetta mál en mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann til að fá betri skýringu á ákveðnum atriðum áður en ég tek til máls. Ég verð að segja að hérna er ýmislegt sem ég skil ekki alveg hvernig yrði framkvæmt. Þar getur vel verið við mig að sakast, ekki frumvarpið, en mig langaði til að fá það algjörlega á hreint frá hv. þingmanni að það sé þá þannig, ef þetta frumvarp til laga nær fram að ganga, að óheimilar séu myndatökur og hljóðupptökur af sakborningum, brotaþolum eða vitnum án samþykkis þeirra eins og segir í síðasta málslið 1. gr.

Dómari getur veitt undanþágu frá banni við öllu framangreindu, segir í frumvarpinu, sem lýtur að hljóðritunum, myndatökum í þinghaldi eða dómhúsum, en nær hún líka yfir síðustu setninguna í greininni? Getur dómari líka veitt undanþágu frá henni? Ég spyr fyrir forvitnissakir. Eða er það þannig að sakborningur getur alltaf haft úrslitaákvörðun um það samkvæmt þessu hvort myndatökur verði heimilar eða ekki? Ég læt þetta duga, ég sé að tíminn er að renna út, en kem betur inn á það í seinna andsvari.