150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:34]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það er rétt að hnykkja á því, hafi það verið óskýrt í framsöguræðu, að með undanþágu við banni er átt við það sem gerist í dómsalnum sjálfum ef dómari er sem sagt að taka þar upp hljóð og mynd af því réttarhaldi sem þar er, eins og hér segir, „enda sé þess gætt að myndatökum og hljóðupptökum verði ekki beint að aðilum dómsmáls án samþykkis þeirra“. Það er aftur á móti alveg fortakslaust að þegar menn eru á leið að og frá dómsal verða myndatökur og hljóðupptökur bannaðar samkvæmt þessu frumvarpi. Ég ítreka aftur að það hefur verið gert að yfirveguðu ráði vegna þess að flutningsmenn telja að það geti haft óæskileg áhrif á þá persónu sem þar á í hlut. Ef málið snýst um tvenns konar hagsmuni., annars vegar hagsmuni þeirra sem flytja okkur fréttir og hagsmuni almennings af rétti til upplýsinga en hins vegar séu hagsmunir þeirra sem eru persónur og leikendur í atburðunum, ef ég get orðað það þannig, er það trúa okkar og vissa að það geti verið það íþyngjandi fyrir slíka aðila að því er þetta sett fram með þessum hætti.