150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég er sannast sagna pínu hugsi yfir þessu frumvarpi til laga sem hér er lagt fram. Þó að ég þykist skilja hugleiðingarnar sem að baki liggja og þær geti í það minnsta stundum átt rétt á sér óttast ég hins vegar þann anda sem hér kemur fram. Fyrir þingtíðindi verður að taka fram að það verður eiginlega að lesa andsvör sem ég átti við hv. þm. Þorstein Sæmundsson, fyrsta flutningsmann málsins, rétt áðan til að skilja sumar vangaveltur mínar. Þær snúa annars vegar að því hvernig framkvæmdin verður í raun, sem er nú kannski minna mál, eðlilega er alltaf hægt að finna út úr því, og hins vegar að þeim anda sem mér finnst birtast hér.

Þó að ég segi að framkvæmdin sé minna mál þá skiptir miklu máli að við sjáum raunhæft fyrir okkur hvernig þau mál sem hér eru tekin til umfjöllunar nái fram að ganga. Hér segir, með leyfi forseta:

„Einnig eru óheimilar myndatökur og hljóðupptökur af sakborningum, brotaþolum eða vitnum á leið í dómhús eða frá því án samþykkis þeirra.“

Ég átti orðastað við hv. flutningsmann áðan um hversu langt þetta næði og það er ekki bara út í loftið. Það vill svo til að það er töluverður réttur fólks til að taka myndir nánast hvar sem er nema sérstakar hömlur séu á því og einn stærsti, ef ekki stærsti, héraðsdómur landsins er við Lækjartorg. Ég geng þar um a.m.k. tvisvar á hverjum einasta degi þar sem allt er fullt af ferðamönnum að taka myndir. Væru þeir allir að brjóta lög ef farsímar þeirra sneru að Héraðsdómi Reykjavíkur og einhver af þeim sem hér eru tilgreindir væru á leiðinni í eða úr dómþingi? Væri ég að brjóta lög ef ég tæki af mér, sjálfu, sjálfhverfur sem ég er, og fyrir aftan mig væri einhver af þeim sem hér eru tilgreindir? Þetta er ekki útúrsnúningur, forseti. Mér finnst þetta draga fram að einhverju leyti erfiðleikana við þetta mál, ekki bara í framkvæmd heldur líka þann anda sem í því birtist og það er kannski hann sem er öllu alvarlegri.

Í greinargerð, forseti, er talað um að meginreglan sé sú að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði og þessi regla verði ekki skert með samþykkt frumvarpsins. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála, ég ætla að leyfa mér að vera ósammála því að það sé sett í hendur persóna og leikenda allra í þessum málum hvort myndir eða hljóðupptökur verði teknar, sett eingöngu í hendur þeirra, þá sé tryggð meginreglan um að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði. Sú regla hefur aldrei í mínum huga, þó að ég hafi starfað sem blaðamaður lengi, snúið að fjölmiðlum. Hún hefur snúið ekki síst að því og kannski fyrst og fremst að tryggja öllum það að réttarhöld sem menn kunna að vera viðriðnir séu öllum opin. Þetta snýr að, ja, á ég að nota frasann um litla manninn? Það snýr að því að einstaklingur geti alltaf treyst því þegar hann tekst á við kerfið, svo dæmi sé tekið, þá sé það allt opið. Því meira sem við lokum því, því meiri hætta er á því að það sem fer fram á bak við luktar dyr sé ekki endilega einstaklingum í hag heldur kerfinu. Það er sú almenna grundvallarskoðun sem ég hef. Enn sterkari skoðun hef ég á því að almennt séð eigi allt að vera opið nema það sé sérstaklega bannað. Þess vegna var ég ekki sérstaklega hrifinn af lagabreytingum nýverið, þótt ég hafi á endanum stutt þær, sem breyttu því hvernig fjölmiðlar gátu sagt frá réttarhöldum með streymi og samtímafrásögnum. Það er lykilatriði að dómskerfið sé eins opið og mögulegt er. Það er réttarfarslegt atriði fyrir borgarana því að það tryggir betur réttindi þeirra, að ekki sé verið að rétta yfir þeim á bak við luktar dyr. Með því er ég ekki að segja að það þýði að þeir fái ekki sanngjarna málsmeðferð, alls ekki. Almennt séð er það hins vegar þannig að því opnara sem allt er, því meira er tryggt að allt sé gagnsætt og allir sjái að hér sé farið eðlilega og jafn rétthátt gagnvart öllum.

Þá kemur að því, forseti, að ég starfaði lengi sem blaðamaður og ég verð að segja að stundum — og nú er ég ekki að ásaka neinn hér inni, ekki einu sinni neinn af þeim flutningsmönnum sem að þessu máli standa — finnst mér umræðan um blaða- og fréttamenn gagnvart dómsmálum vera í þá átt að umfjöllunin sé á einhvern hátt fyrir blaða- og fréttamennina sjálfa. Svo er alls ekki. Blaða- og fréttamenn gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki. Þeir segja ekki frá nema að það sé fréttnæmt. Það er ósköp einfalt mál. Þess vegna hugnast mér afskaplega illa sú hugsun að þetta sé allt bannað nema það sé leyft, dómari geti veitt undanþágur. Vissulega er það þannig í lögum í dag þegar kemur að hljóð- og myndupptökum í þinghaldinu sjálfu. Ég hefði viljað snúa því við. Það að eitthvað sé opið en bannað við sérstakar aðstæður þýðir að það þarf að rökstyðja sérstaklega af hverju það er bannað. Það getur verið mjög auðsótt mál. Viðkvæm mál liggja undir. Það eru nú þegar í dag ákveðin mál sem koma fyrir dómstóla þar sem alltaf er tryggt að allt þetta er bannað. En það þarf að rökstyðja það. Þetta snýst um ákveðið hugarfar, að frekar en að allt sé bannað nema það sé sérstaklega leyft, er allt leyft nema það sé sérstaklega bannað. Það tryggir þetta opna samfélag sem við eigum öll að stefna að.

Og svo hitt sem hér er bætt við. Það er sérstaklega sett í hendurnar á t.d. sakborningum hvort af þeim séu teknar myndir og dómari getur ekki einu sinni haft nein áhrif þar á, eins og kom fram í andsvörum mínum við hv. þm. Þorstein Sæmundsson.

Nú má vel vera að þetta sé svona í einhverjum löndum í kringum okkur. Ég þekki ekki þá sögu, hversu langt aftur hún nær, hver umræðan er í þeim löndum. En andinn sem hér birtist hugnast mér illa og hugnast hann vera angi af þeirri hreyfingu sem mér finnst vera æ meira áberandi, sérstaklega í hinum vestræna heimi, kannski bara af því að ég fylgist betur með þar, í þá átt að það þurfi sérstaklega að loka fyrir, það þurfi að halda utan um hlutina nema sérstakt leyfi verði til þess að menn þurfi að sleppa takinu og opna. Ég vil hafa það akkúrat öfugt, höfum allt opið nema sérstakar aðstæður krefjist þess að það verði bannað.