150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem kom mér í sjálfu sér ekki í opna skjöldu. Það er mjög heilbrigt og eðlilegt að við hv. þingmaður skulum kannski vera á öndverðum meiði um það af hvaða hvötum þetta frumvarp er sett fram. Hv. þingmaður sagði áðan að blaðamenn og fréttamenn væru ekki að afla upplýsinga fyrir sig, það er alveg rétt. Þeir eru að afla upplýsinga til að selja blöð og auka áhrif og áhorf á þær fréttastofur sem þeir eru fulltrúar fyrir, sem er eðlilegasti hlutur í heiminum.

Spurningin snýst hins vegar um annað, og þar erum við hv. þingmaður kannski ósammála vegna þess að hann talar um að þarna sé verið að reyna að loka. Nei, það er ekki verið að loka. Þarna er verið að gera hagsmunum þeirra sem eiga erindi í dómsal af einhverjum ástæðum, hvort sem þeir eru sem vitni, sakborningar eða eitthvað annað, hærra undir höfði en gert hefur verið. Í greinargerðinni kemur fram að þess séu dæmi að vitni í dómsmálum hafi reynt að færa sig undan því að bera vitni vegna þess að þau eiga von á því að myndir birtist af þeim sem eru svo á forsíðum fréttablaða eða á skjám sjónvarps meðan á því stendur. Spurningin snýst einfaldlega um það. Ég virði það mjög að við hv. þingmaður séum á öndverðum meiði um þessa hagsmuni, hverra hagsmuni við teljum meiri. Eru það þeir sem verða fyrir áreitinu og eiga þarna erindi, sumpart nauðugir viljugir? Eða er það réttur þeirra sem heima sitja og/eða lesa blöð eða eitthvað svoleiðis að fá að vita nákvæmlega hver það er sem þar er á ferðinni og fá mynd af viðkomandi frá dyrum dómhúss og inn í sal o.s.frv. (Forseti hringir.) og að menn séu þar eltir með myndavél alla þá leið? Ég er á þeirri skoðun, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að hagsmunir þeirra sem eiga þarna erindi vegi hærra en þetta.