150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:55]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Sá er munurinn á veru okkar hv. þingmanns hér fyrir framan myndavélar í þingsal Alþingis að við sóttumst eftir því að vera hér, vitandi það að allir fundir Alþingis eru gerðir opinberir um leið og þeir fara fram. Við höfum hins vegar ekkert um það að segja ef við erum annaðhvort í hlutverki grunaðs manns, í hlutverki vitnis eða af öðrum ástæðum sem við þurfum að vera þátttakendur í þinghaldi í dómsal, hvort af okkur séu teknar myndir eða ekki. Þar með er brotið á einkarétti okkar að því leyti til vegna þess að við veljum ekki að vera þar. Ef við erum sakborningar er það væntanlega vegna þess að við höfum brotið af okkur. Ef við erum vitni er það út af því að við erum kölluð fyrir réttinn, ekki út af því að við veljum að vera þar, eins og við veljum að vera hér. Á þessu er grundvallarmunur.

Mér þykir líka hv. þingmaður ekki eins framsækinn eða framsýnn og við sem flytjum þetta frumvarp vegna þess að engu er líkara en að hv. þingmaður haldi og trúi að Héraðsdómur Reykjavíkur verði til eilífðar á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Það er alls ekki víst. Það hefur verið talað um það ótal oft, alla vega á mínum tíma svo ég muni eftir, að þessi staður sé óhentugur fyrir dómhús. Við erum með dómhús úti um allt land. Ef ég man rétt er eitt í göngugötunni á Akureyri og ég man ekki einu sinni hvort hægt er að komast að því öðruvísi en beint framan að því. En þetta eru aðstæður sem við höfum skapað og það á ekki að bitna á þeim sem eiga erindi þar inn, hvort sem þeir eru blásaklausir eða hafa réttarstöðu grunaðs eða eru meintir sakamenn. Aðstöðuleysið sem við sköpum á ekki að bitna á þeim, alls ekki.

Þá spyr ég, af því að hv. þingmaður sagði að almenningur ætti rétt á þessum upplýsingum: Varðar almenning (Forseti hringir.) eitthvað sérstaklega um það hvort Jón Jónsson eða Jóna Jónsdóttir eru kölluð sem vitni í einhverju sakamáli, beri vitnisburð sem þau kæra sig kannski (Forseti hringir.) ekki endilega um að veita undir slíkum kringumstæðum? Hvaða rétt á almenningur endilega (Forseti hringir.) umfram rétt þeirra í málinu?