150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[19:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig mjög vel á því að það eru tvö andstæð sjónarmið hérna. Annars vegar er tvímælalaust það sjónarmið sem er lýst í þessu frumvarpi en svo er líka hitt sjónarmiðið sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé lýsti og það er ákveðin misnotkun á lokaða ferlinu sem er möguleg líka. Þá erum við að tala um tvo möguleika sem vega misþungt og það er mjög erfitt að sýna fram á eða segja hvor vegur þyngra þegar allt kemur til alls. Lokað rými getur vissulega líka verið ógnandi fyrir vitni ef sá sem maður er að glíma við í rauninni er sá sem stjórnar lokaða rýminu.

Það sem ég vil hins vegar segja um þetta, bara einfalt dæmi, er um fjölmiðla og þá fagmennsku sem ég sé alla vega þar. Ég man ekki eftir einu dæmi og í stuttri leit sé ég ekki eitt dæmi um að verið sé að hrúga upp myndum af vitnum í fjölmiðlum. Það er einfaldlega fagmennska fjölmiðla sem spilar þar inn í. Þeir geta tekið myndir af vitnum og birt þær fram og til baka en gera það ekki, ég man alla vega ekki eftir því að það hafi verið til vandræða. Þegar allt kemur til alls er opið aðgengi almennt séð í okkar hag og það aðhald sem það veitir valdinu, dómsvaldinu, og að það sé aðgengilegt öllum því að þar eru líka möguleikar á spillingu sem við þurfum að hafa áhyggjur af.