150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[19:12]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið eins og ég skil það. Ég held að það sé einn grundvallarmisskilningur í máli hv. þingmanns að með þessu frumvarpi sé verið að festa í sessi eitthvert vald og efla valdið. Þvert á móti er verið að vernda persónu þeirra sem eiga af einhverjum ástæðum erindi inn í dómsal. Það er ekkert verið að vernda dómsalinn eða dómarann. Það er verið að vernda hagsmuni þeirra sem eiga erindi í dómsal, annaðhvort sem vitni eða sem sakborningar eða tilkvaddir sérfræðingar eða eitthvað slíkt. Það er einfaldlega verið að vernda hagsmuni þeirra fyrir því að þeir séu ekki útsettir fyrir dreifingu á mynd- eða hljóðefni af þeim þegar þeir eru í þessum erindagjörðum. Að því leyti skil ég þingmanninn ekki alveg vegna þess að það er fjarri því að verið sé að festa í sessi eitthvert vald eða auka vald dómstóla með þessu móti.

Það er hins vegar alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði áðan, og ég er algjörlega sammála honum í því, að við erum að tala um hagsmuni sem takast á. Það er í okkar verkahring hér að kveða upp úr um það með einhverju móti, með því jafnvel að annaðhvort samþykkja þetta mál eða fella það, þ.e. hverra hagsmunir við teljum að séu meiri. Er það réttur til einkalífs, þeirra sem eiga erindi í dómsal, eða réttindi þeirra sem skrifa og selja blöð og/eða réttindi þeirra sem lesa fréttir í blöðum um þessa sömu atburði? Hvorir hagsmunirnir vega meira? Þetta frumvarp svarar í sjálfu sér þeirri spurningu, um afstöðu þeirra sem flytja það.