150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[19:16]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Mér skilst að einhver vísindamaður úti í bæ hafi fundið út að menn með mínu vaxtarlagi væru ekki sérlega greindir og ég geri ráð fyrir að ég geti staðfest það núna í þessari umræðu. Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór með hér áðan vegna þess að þetta snýst ekkert um málsvörn manna eða hvar þeir flytja hana eða undir hvaða kringumstæðum. Þetta snýst um einkalíf þeirra sem eiga erindi í dómsal, allra málsaðila, að þeir eigi rétt til þess að fara að og frá dómsal án þess að sæta því að teknar séu af þeim myndir eða hljóð. Hvað gerist svo í dómsalnum? Þar fer málsvörnin fram. Hún fer ekki fram á ganginum. Hún fer heldur ekki fram fyrir framan dómhús, hún fer fram inni í dómsalnum. Þess vegna skil ég þetta ekki alveg. En eins og ég segi, ég verð að skrifa það á það sem ég nefndi í upphafi.