150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

viðbrögð við spá Seðlabankans um hagþróun.

[10:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ný spá Seðlabankans um hagþróun er töluvert áhyggjuefni og hlýtur að vera það fyrir hæstv. fjármálaráðherra líka og ríkisstjórnina. Því spyr ég einfaldlega: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin bregðast við þessu ástandi, þessari þróun, sem er að einhverju leyti fyrirséð, annars vegar í ríkisfjármálunum og ákvörðunartöku ríkisins varðandi fjárfestingar og slíkt og hins vegar gagnvart fyrirtækjunum, ekki hvað síst litlu fyrirtækjunum og meðalstóru í landinu sem hafa að undanförnu mörg hver átt í töluverðum erfiðleikum vegna þess hvernig hinar ýmsu hagstærðir hafa verið að þróast og reksturinn verið mjög að þyngjast? Það hefur ekki farið fram hjá neinum í stjórnmálum að rekstrarstaða sérstaklega minni fyrirtækja hefur þyngst mjög. Þess vegna eru þessar nýju spár þeim mun meira áhyggjuefni fyrir þá sem standa í rekstri.

Spurningarnar eru þessar: Hvernig munum við sjá viðbrögð ríkisstjórnarinnar birtast, annars vegar í rekstri ríkisins og hins vegar hvað varðar það að létta undir með þeim sem standa í fyrirtækjarekstri?