150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

viðbrögð við spá Seðlabankans um hagþróun.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi það að við höfum ákveðnar áhyggjur af því að hagvöxtur er minni en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Það kemur m.a. til af því að við höfum ekki lengur þennan kraftmikla vöxt í ferðaþjónustu í landinu þó að við höfum gríðarlega öfluga ferðaþjónustu heilt yfir og mikinn fjölda ferðamanna á Íslandi. Sömuleiðis eru það vonbrigði að mælingar á loðnustofninum virðast ekki ætla að gefa tilefni til að gefa út kvóta fyrir loðnuveiðar á þessu ári en þó eru ekki öll sund lokuð enn. Við vonumst enn eftir því að loðna finnist. Við sjáum að miklar launahækkanir á undanförnum árum eru að brjótast fram með því að atvinnufyrirtækin draga úr fjárfestingum.

Réttu viðbrögðin af hálfu ríkisins eru þegar farin að birtast. Við höfum gefið eftir aðhaldið, við erum með nokkurn slaka í ríkisfjármálum um þessar mundir. Það eru réttu viðbrögðin. Það eru sömu viðbrögð og Seðlabankinn er að sýna með lækkun vaxta. Ég er þeirrar skoðunar að nú þurfi að auka við fjárfestingu hins opinbera á næstu árum enn frekar en þegar er orðið, m.a. í innviðunum, og við erum í ágætisfærum til að gera það. Við eigum verðmætar eignir og við stöndum vel vegna þess að við höfum ráðstafað ávinningnum af góðærinu á undanförnum árum til uppgreiðslu skulda þannig að skuldahlutföll ríkisins eru mjög sterk. Ef við skoðum lítil fyrirtæki, meðalstór, sem hv. þingmaður bendir á, og skipta sköpum hér í hagþróuninni, vegna þess að þar eru flest störfin, þá höfum við verið að leggja sérstaka áherslu á nýsköpun á undanförnum árum. En hvað er það sem einkennir þessi fyrirtæki? Jú, við höfum verið að lækka tryggingagjaldið. Margir vilja meina að það þyrfti að lækka enn frekar. Það sem einkennir stöðu þessara fyrirtækja er að samkeppnisstaða þeirra hefur gjörbreyst vegna þess hve launahlutfallið er orðið hátt. (Forseti hringir.) Nú eru merki um að við sjáum á komandi árum tíma þar sem við munum sjá kröfu um meiri framlegð og sameiningar og annað þess háttar.