150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

skerðingarflokkar lífeyris.

[10:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í svari sem ég fékk frá félags- og barnamálaráðherra nýlega kemur skýrt fram að það eru tíu skerðingarflokkar hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Í þessum skerðingarflokkum eru skerðingar frá 11,9% upp í 65%. En þetta segir ekki alla söguna vegna þess að innan þessara flokka eru keðjuverkandi skerðingar. Og þegar komið er út fyrir þessa flokka taka við aðrir skerðingarflokkar í félagsmálakerfinu eins og sérstakur húsnæðisstuðningur og húsaleigubætur o.fl. Samanlagt geta þessar skerðingar farið vel yfir 100% í dag. Ríkisstjórnin hælir sér af því að hún hafi gert svo mikið fyrir öryrkja en er inni í þeirri tölu, síðan þessi ríkisstjórn kom til valda, 8 milljarða kr. aukning á skerðingum í þessum flokki? Frá 2015, ef við tökum ríkisstjórnir undanfarinna ára, hafa þær aukið skerðingarnar um 13 milljarða kr., og bara núna á síðustu þremur árum um 8,5 milljarða. Á sama tíma hæla þeir sér af því að þeir hafi gert svo rosalega mikið fyrir þennan hóp. En taka þeir allar skerðingar inn í þegar þeir eru að segja hversu háar upphæðir þessi hópur hefur fengið? Þetta skilar sér alls ekki í vasa þeirra sem mest þurfa á þessu að halda, heldur er þetta bara leikur að tölum.

Mér er spurn: Ætlar félags- og barnamálaráðherra að halda þessari skerðingarstefnu áfram? Er hann stoltur af þessu? Er það eitthvert markmið að sjá til þess að skerða fólk þannig að það eigi ekki fyrir framfærslu eða hver er stefnan í þessum málum? Það kemur alveg hreint fram að þó að þessi ríkisstjórn hafi minnkað krónu á móti krónu skerðinguna úr krónu í 65 aura þá skilaði það sér ekkert til þeirra sem þurfa á því að halda vegna þess að þá tóku aðrir flokkar við og skertu keðjuverkandi meira.