150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

opinberar fjárfestingar.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem stendur upp úr eftir þessa ræðu er eiginlega það hvort hv. þingmaður styður ekki þá breytingu sem hann var að boða hérna í lokin að þyrfti að gera. (ÞorstV: Ég styð hana.) Hann styður hana, það er gott. Ef það þarf breytingar á lögum til þess að ríkið geti snúið eignum á efnahagsreikningi sínum, snúið hlutabréfum í banka yfir í vegi, brýr, hafnir, gagnastrengi og aðra nauðsynlega innviði sem munu efla þetta samfélag til framtíðar, þá mun ég svo sannarlega leggja slíka tillögu fyrir þingið. (ÞorstV: Er meiri hluti fyrir því?) Þegar þessar ræður eru fluttar hér um að ríkisstjórnin hafi villst af leið, hún hafi fylgt röngum hagspám, hún hafi verið of bjartsýn, þá bið ég menn um að …

Við heyrum reglulega hér inni í þingsal að við höfum verið á rangri leið. Hvert hefur það skilað okkur? Skuldir ríkissjóðs hafa aldrei verið lægri. Staða ríkissjóðs aldrei sterkari. (Forseti hringir.) Staða heimilanna aldrei sterkari, kaupmáttur Íslendinga mestur meðal þjóða innan OECD o.s.frv. Við höfum verið á hárréttri leið. Við erum í engri kreppu. Við erum á gríðarlega sterkum stað en það eru verkefni sem bíða okkar og úr þeim getum við leyst.