150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hef áður vakið athygli á því að þegar kemur að atkvæðagreiðslu um skýrslubeiðni væri stundum heppilegra að mál hefðu fengið einhvern aðdraganda, einhverja umfjöllun í þinginu áður en atkvæðagreiðsla færi fram. Ekki er gert ráð fyrir því í þingsköpum en ég hef nefnt á vettvangi þingskapanefndar að einhver lágmarksathugun ætti að fara fram, bæði á umfangi og formi skýrslubeiðna. Í þessu tilviki sýnist mér að menn hafi dálítið ruglað saman hugmyndum um skýrslubeiðni, fyrirspurn og þingsályktunartillögu. Málið er ekki þess eðlis að það falli vel að skýrslubeiðnafyrirkomulaginu. Að hluta til er þarna um að ræða upplýsingar sem vissulega eru til í opinberum gögnum og hægt að leiða fram. Í öðrum tilvikum virðist vera ætlunin að skoðaðir séu þættir sem eru í opinberri rannsókn, annars vegar hér og hins vegar í Namibíu, og verður eðli málsins samkvæmt ekki hægt að svara á grundvelli þessarar skýrslubeiðni.

Af þessum sökum vil ég koma þessum athugasemdum á framfæri og mun sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.