150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir hvert orð sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði um æskilegan aðdraganda að skýrslubeiðnum oft og tíðum og þingsköpin í því tilliti. Alla jafna styð ég skýrslubeiðnir og gagnaöflun af ýmiss konar tagi og það gerum við Framsóknarmenn svo sannarlega og stöndum ekki í vegi fyrir því. Ég vil þó gera athugasemd við orðalag í greinargerð. Ég tel ótækt, virðulegi forseti, að gefa sér eitthvað um þær greiðslur sem vísað er til í greinargerð þar sem talað er um að „sérstökum greiðslum til þeirra sem ráðið hafa mestu um úthlutun veiðiréttarins“ verði bætt við í slíkum útreikningum. Ég geri hins vegar ekki athugasemd við beiðnina sem slíka og ætla ekki að standa í vegi fyrir því að hæstv. ráðherra greini frá því sem beðið er um enda mun það byggja á opinberum gögnum, geri ég ráð fyrir, sem liggja fyrir (Forseti hringir.) til grundvallar á slíkum samanburði.