150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Svo er að skilja á þingmönnum meiri hlutans að þeir hefðu gjarnan viljað fá að ritstýra skrifum á þessari skýrslubeiðni en þetta er eitt tæki minni hlutans til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þetta er einföld skýrslubeiðni og fullkomlega eðlilegt að almenningur fái að vita samanburðinn hvað þetta varðar. (Gripið fram í: Bara …) Ítrekað hefur verið bent á að veiðigjöld hér hafi lækkað, þau séu lág sem hlutfall af þeim verðmætum sem þar eru til skiptanna. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að kerfin eru að vissu leyti ólík. Í Namibíu er verið að tala um veiðiheimildir til eins árs. Á Íslandi er verið að tala um ótímabundnar veiðiheimildir sem ættu þá að vera talsvert verðmætari með rökum útgerðarinnar sjálfrar og þess vegna sé ég ekki hvers vegna meiri hlutinn óttast þennan samanburð.