150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að það sé alrangt hjá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni að menn óttist þennan samanburð. Það sem er hins vegar asnalegt frá mínum bæjardyrum séð er að bera saman epli og appelsínur, en það er líka atriði sem ég vildi gera að umræðuefni hér í dag, að menn koma með eitthvað í formi skýrslubeiðni sem að hluta til á vissulega heima sem skýrslubeiðni en er að hluta til einhvers konar fyrirspurn til ráðherra og að hluta til einhvers konar pólitísk þingsályktunartillaga. Án þess að ég vilji með nokkrum hætti ritstýra því sem stjórnarandstaðan gerir, enda er ég ekki fær um það, hefði ég haldið að smáumhugsun og smáumræða um form og framsetningu skýrslubeiðninnar hefði hjálpað hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem að þessu standa til að koma með skýrari beiðni til að kalla fram þær upplýsingar sem þau vilja kalla fram án þess að (Forseti hringir.) grauta öllu saman.