150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Eðlilegast í heimi er að landsmenn fái upplýsingar. Heldur einhver hér inni að landsmenn vilji ekki hafa samanburð á því hvað við fáum fyrir okkar auðlind, fiskveiðiauðlindina á Íslandi, og hvað fyrirtæki sem er með auðlindirnar á Íslandi borgar annars staðar? Halda menn í alvörunni að landsmenn vilji ekki fá þessar upplýsingar? Er það lýðskrum að spyrja um þær? Nei, það er ekki lýðskrum að spyrja um þær upplýsingar. Það að þessi skýrslubeiðni fari í gegn þýðir að ráðherra og ráðuneytið getur í miklu víðtækara máli brugðist við en ef það væri fyrirspurn. Ráðuneytið getur svarað ítarlegar og þá getur það tekið samanburðinn í stóra samhenginu. Það er tækifærið með skýrslubeiðninni. Það er ekki tækifæri til að gera það þannig ef það er fyrirspurn sem þarf ekki að samþykkja hérna heldur er send beint á ráðherra. Svo hefur verið kvartað undan fyrirspurnum með þeim rökum að menn hafi notað það form of mikið. Þær fyrirspurnir myndu ekki gera ráðuneytinu kleift að koma fram með þau sjónarmið sem hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, virðist vera að setja fram. Honum finnst þetta ekki sambærilegt á þeim forsendum (Forseti hringir.) sem settar voru fram þarna, en ráðherra getur alveg bætt því inn í skýrsluna og sett þá upp þann samanburð sem ráðuneytinu finnst vera sanngjarn. Það er tækifærið og við eigum að leyfa landsmönnum að fá þann samanburð.