150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við höfum á síðustu mánuðum og misserum farið í atkvæðagreiðslur um skýrslubeiðnir af mismunandi undarlegum toga. Hér er einhvers konar pólitískur loddaraskapur á ferð. Það er ekkert að því að fá slíkar upplýsingar fram og bera þær saman en þegar menn biðja um skýrslu eru þeir yfirleitt að biðja um miklu umfangsmeiri verkefni, stundum allt of stór sem hefur jafnvel tekið mikinn mannafla og heilu árin að vinna. Þá eru menn í raun og veru að fara fram á rannsóknarskýrslu upp á nokkur hundruð milljónir. Ég held að við þurfum aðeins að velta fyrir okkur í hvaða farvegi þessar upplýsingar eiga að vera. Það er sjálfsagt að þingmenn, bæði stjórnarandstöðuþingmenn og stjórnarþingmenn, geti borið fram beiðnir um að fá upplýsingar og að framkvæmdarvaldið afli þeirra ef það er í stakk búið til þess. Hins vegar er alltaf spurning í hvaða búningi (Forseti hringir.) menn bera slíkt fram. Er það óundirbúin fyrirspurn, skrifleg fyrirspurn, skýrslubeiðni eða eitthvað allt annað og miklu stærra? Ég held að hér sé því miður um að ræða pólitískan loddaraskap. (Gripið fram í: Þetta er réttur …)