150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er alveg stórmerkilegt að hlusta á stjórnarmeirihlutann tala um pólitískan loddaraskap eða lýðskrum. Hér er einföld skýrslubeiðni. Hvernig eru greiðslur fyrir afnot af auðlind hér á landi í samanburði við það sem útgerðin greiðir annars staðar sem við höfum séð samkvæmt fréttum að kunna að vera allt að tvöfalt hærri en sama fyrirtækið er að greiða fyrir afnotaréttinn hér á landi? Þetta eru upplýsingar sem eiga erindi til almennings. Er útgerðin ekki samkvæm sjálfri sér um það aðgangsgjald sem hún er reiðubúin að greiða annars staðar samanborið við það aðgangsgjald sem hún er reiðubúin að greiða hér og kvartar hástöfum undan að sé allt of hátt? Sé það raunin að aðgangsgjaldið fyrir skammtímaveiðiheimildir í Namibíu sé tvisvar sinnum hærra en veiðigjöldin hér á landi eru það upplýsingar sem eiga erindi við almenning hér á landi og leggja mat á stefnu stjórnvalda um veiðigjöld hér á landi. Þess vegna á þessi skýrslubeiðni fullt erindi. (Forseti hringir.) Hún er einföld, auðskiljanleg og ekkert er verið að þvæla saman þingsályktunartillögu og skýrslubeiðni. Þetta er mjög skýr og einföld skýrslubeiðni sem ég styð heils hugar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)