150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og glöggir alþingismenn hafa nú tekið eftir var Miðflokknum ekki boðið að vera meðflytjandi að þessari skýrslubeiðni. Greinargerðin hefði kannski verið ögn öðruvísi ef það hefði orðið. Beiðnin sjálf er ekki alslæm. Það er mjög forvitnilegt að bera saman kostnað við veiðar milli ólíkra landa. Það er engin spurning. Ég hefði gjarnan viljað að í þessari skýrslu kæmi þá að auki fram samanburður á útgerðarkostnaði milli Íslands, Noregs og Rússlands, svo eitthvað sé tekið hér fram. Hins vegar eru alvarlegir ágallar á greinargerðinni í þessu máli sem mér finnst skemma beiðnina. Ég mun samþykkja hana, engin spurning, það er engin lína í Miðflokknum að gera það en ég mun gera það vegna þess að það er mikilvægt að við höldum til haga rétti þingmanna til að biðja um skýrslur.

Í greinargerðinni stendur, með leyfi forseta:

„Það pólitíska mat hefur aftur í verulegum atriðum byggst á áliti þeirra hagsmunaaðila í útgerð sem eru fulltrúar þeirra fyrirtækja sem gjaldið greiða.“

Þarna eru fullyrðingar sem eru bara rugl og svona þvæla á ekki heima í svona beiðni.