150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:25]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan er ásökuð um lýðskrum. Ég ásaka hins vegar stjórnarliðana um þá klassísku sérhagsmunagæslu sem við sjáum aftur og aftur í þessum sal þegar kemur að málefnum ákveðinna fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta er hluti af miklu stærri mynd og mér finnst alveg fáránlegt ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að fella skýrslubeiðni um samanburð sem við erum að biðja hæstv. sjávarútvegsráðherra að sinna, sérstaklega í því andrúmslofti að á þessu kjörtímabili hafa upphæðir veiðileyfagjalda lækkað um helming. Það eru örfáar vikur síðan meiri hlutinn felldi beinlínis tillögur stjórnarandstöðunnar um að setja sérstaka fjármuni í að rannsaka Samherjamálið. Það er sérstakt forgangsmál hjá fjármálaráðherra að afnema stimpilgjöld af fyrirtækjum sem kaupa stór skip þannig að ég held að þjóðin sjái alveg hvaða hagsmuna þessi ríkisstjórn er alltaf að gæta. Fyrstu hagsmunirnir eru alltaf hagsmunir stórútgerðarinnar. Það er fáránlegt, herra forseti, ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að fella fullkomlega (Forseti hringir.) eðlilega skýrslubeiðni sem áratugahefð er fyrir að séu samþykktar, bæði af minni hluta og meiri hluta.