150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég kem upp af því að spurt var hvað þeir hræddust sem tala um að þessi skýrslubeiðni sé sérkennileg. Síðasti hv. þingmaður afhjúpaði það eiginlega, hann sagði að ef alls ekki væri hægt að bera saman þessa hluti væri skýrslan tilhæfulaus og marklaus. Það er mat okkar að svo sé og þess vegna greiðum við atkvæði um skýrslubeiðnir almennt og það er þess vegna sem ég sagði í inngangsorðum mínum í fyrri ræðu að við þyrftum að velta fyrir okkur hvert þetta ferli væri að fara. Til hvers erum við að biðja um skýrslur? Er það til að vera með pólitískan leikaraskap sem er núna búinn að standa yfir í tugi mínútna? Ég óttast það. Það sem ég óttast, hv. þm. Oddný Harðardóttir, er popúlismi, lýðskrum og pólitískur leikaraskapur. Ég tek eftir því hverjir taka þátt í því að leggja fram þessa skýrslubeiðni og það kemur á óvart.