150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræn eignarskráning.

370. mál
[11:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga. Í greinargerðinni segir:

Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu með aðstoð nefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði. Nefndinni var m.a. falið að rýna þýðingu og undirbúa innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar í íslenskan rétt. Reglugerðin er á ensku jafnan kölluð „Central Securities Depositories Regulation“ eða CSDR.

Það er fróðlegt að skoða aðeins heimasíðu Nasdaq verðbréfamiðstöðvar á Íslandi. Þar er kafli sem ber heitið „Nýtt starfsleyfi á grundvelli CSDR“ og þar segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp til laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga (CSDR) var lagt fram á Alþingi þann 14. nóvember sl. Þó svo að ólíklegt sé að það gefist tími fyrir jól til að ljúka afgreiðslu frumvarpsins þá bindum við vonir við að meðferð þess ljúki fyrir Alþingi í byrjun árs 2020 og að gildistaka laganna verði snemma á nýju ári. Við sendum inn umsókn um framlengingu á núverandi starfsleyfi Nasdaq CSD, móðurfélags verðbréfamiðstöðvarinnar, á grundvelli CSDR í byrjun október og var hún metin fullgild um miðjan nóvember. Þetta er ein af mikilvægum forsendum þess að við getum sameinast öflugri verðbréfamiðstöð Nasdaq CSD og getum þannig keppt um þjónustu og vöruframboð á alþjóðagrundvelli.“

Rétt er í þessu sambandi að benda á viðtal í Viðskiptablaðinu við Magnús Ásgeirsson, framkvæmdastjóra Nasdaq. Yfirskrift þess viðtals er „Bíða eftir reglunum í ofvæni“. Þar segir framkvæmdastjórinn breytingarnar sem fylgja í kjölfarið þær mestu sem gerðar hafa verið í 20 ár.

Síðan segir áfram í viðtalinu, með leyfi forseta:

„Miklar breytingar eru fram undan hjá verðbréfamiðstöðinni en auk þeirra breytinga sem nýtt regluverk kallar á stefnir verðbréfamiðstöðin á Íslandi að sameiningu við verðbréfamiðstöð Nasdaq CSD í Eystrasaltslöndunum.“

Með þessu frumvarpi er ekki bara verið að samþykkja CSDR heldur einnig hvaða ákvæði laga gilda um rafræna eignarskráningu og útgáfu verðbréfa. Nú liggur fyrir, og ég hef rakið það hér, m.a. með því að vísa í þetta viðtal og svo á heimasíðu Nasdaq, að Nasdaq verðbréfamiðstöð á Íslandi verður með útibú frá Lettlandi í móðurfélaginu og þar með starfsleyfi sem verðbréfamiðstöð. Nasdaq verður því ekki lengur íslensk verðbréfamiðstöð starfandi undir íslensku starfsleyfi, eftirliti og lögum að fullu leyti. Nasdaq verður í raun ekki lengur íslenskt félag. Nasdaq er skilgreint sem tveir af mikilvægustu innviðum fjármálakerfisins á Íslandi og þá spyr maður: Er ásættanlegt að þessir innviðir séu í raun lettneskir? Þetta er ekki íslenskt félag og hefur ekki starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands. Eru eigendur verðbréfa á Íslandi sáttir við að íslensku bréfin þeirra séu skráð í Lettlandi með þeirri lagaumgjörð sem þar er um eignarskráningu? Er greint hvaða lagaskil munu gilda? Áfram er hægt að spyrja: Hafa aðilar áttað sig á þeirri auknu áhættu sem felst í því að öll samskipti við kerfi Nasdaq yfir hafið, ef svo má segja, til Lettlands og vistun á vélbúnaði verður einnig í einu landi? Með öðrum orðum verður ekkert lengur á Íslandi.

Herra forseti. Þetta eru að mínu mati álitaefni sem hefði þurft að skoða mun betur og nú mun, eins og komið hefur fram, Nasdaq renna inn í móðurfélag í Lettlandi. Við það að félagið renni inn í stóra samsteypu hverfur allt gegnsæi, t.d. um kostnað, og þá sést reksturinn á Íslandi ekkert sérstaklega. Þá spyr maður: Munu íslenskir fjárfestar eins og lífeyrissjóðir geta séð hvað þessi rekstur kostar? Eru ekki allar líkur á að íslenskir fjárfestar verði hugsanlega bara ofrukkaðir, ef svo má að orði komst?

Allt eru þetta álitaefni sem hefði þurft að svara. Nasdaq verðbréfamiðstöð hefur á síðustu árum haft hundruð milljóna króna í tekjur af lífeyrissjóðunum og öðrum eigendum verðbréfa, samanber hagnaðinn sem hefur verið af þessari starfsemi undanfarin ár. Nú verður sem sagt komið erlent eignarhald og bréfin vistuð erlendis. Öll ákvarðanataka, stýring, stjórnun, rekstur kerfa, fjárfestingar, gjaldtaka o.s.frv. verður allt komið til Lettlands verði þetta frumvarp að lögum.

Herra forseti. Ég hefði talið mjög æskilegt að stjórnvöld hefðu velt fyrir sér og gert grein fyrir því hvaða þýðingu þetta mun hafa fyrir innlendan fjármálamarkað og innviði hans. Þetta er nokkuð sem hefði þurft að ræða mun betur.

Ég get því ekki stutt þetta frumvarp og mun sitja hjá við afgreiðslu þess.