150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Norræna ráðherranefndin 2019.

538. mál
[12:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Á öllum listum sem er eftirsóknarvert að vera á raða Norðurlöndin sér hæst. Friður er okkar aðalsmerki og einnig traust á milli manna sem er meira á Norðurlöndum en víðast annars staðar.

Var umræða í Norrænu ráðherranefndinni um að standa vörð um norræna módelið og þær þrjár stoðir sem hafa kannski lyft okkur upp eftir þessum listum yfir hagsæld, hvar best sé að búa, jöfnuð og réttlæti, þ.e. ábyrga efnahagsstjórn, heilbrigðan vinnumarkað og velferðarkerfi fyrir alla, þessar þrjár mikilvægu stoðir undir norræna módelið? Telur hæstv. ráðherra að þessu norræna módeli sé að einhverju leyti ógnað með umbreytingum sem verða í aðgerðum í loftslagsmálum eða aukinni tækni sem er á hraðri leið úti um allt? Telur hæstv. ráðherra að ekki þurfi í öllum þeim breytingum að gæta að þessum þremur stoðum norræna módelsins til að þær umbreytingar verði ekki til að við hrynjum niður eftir listum sem verði til þess að jöfnuður verði minni á Norðurlöndum og vinnumarkaðurinn jafnvel óheilbrigðari?