150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Norrænt samstarf 2019.

557. mál
[12:18]
Horfa

Frsm. ÍNR (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf á árinu 2019. Mér finnst athyglisvert, herra forseti, ef ég má segja áður en ég flyt skýrsluna, að enginn þingmaður skuli sitja í salnum en ég fagna því að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skuli sitja hér og hlýða á ásamt forseta. Mér finnst þetta athyglisvert af því að mikið er lagt upp úr norrænu samstarfi í ríkisstjórnarsamstarfinu og það kemur fram í samstarfsyfirlýsingunni að megináherslan í utanríkisstefnunni sé lögð á samstarf Norðurlanda. Vonandi eru hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar að velta þessum hlutum fyrir sér annars staðar í húsinu.

Á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi árið 2019 var Silja Dögg Gunnarsdóttir kjörin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2020 og sú sem hér stendur, Oddný G. Harðardóttir, varaforseti. Jafnframt var formennskuáætlun Íslendinga samþykkt en meginþemu hennar eru þrjú: upplýsingaóreiða og falsfréttir, líffræðilegur fjölbreytileiki og tungumálaskilningur milli norrænna þjóða. Á þinginu var einnig samþykkt ný stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi sem sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs mótaði. Ég átti sæti í þeim hópi. Meiri hluti þingmanna í Norðurlandaráði samþykkti nýja áætlun norrænu ráðherranefndarinnar um fjármögnun fimm norrænna rannsóknastofnana, þar á meðal Norræna eldfjallasetursins í Reykjavík. Norræna ráðherranefndin hafði dregið til baka fyrri áætlun um að fella niður fastar fjárveitingar til stofnananna, einkum vegna andstöðu íslenskra þingmanna og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar taka átti tillöguna til meðferðar á vorþingi Norðurlandaráðs á Akureyri 2018. Í nýju tillögunni er gert ráð fyrir lengra aðlögunartímabili vegna breytinganna og fleiri úrbótum til að tryggja norrænar tengingar stofnananna.

Í formennskutíð Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2020 var mótuð framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030. Í framtíðarsýninni eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Á árinu 2020 verða mótaðar þverlægar framkvæmdaáætlanir fyrir tímabilið 2021–2024 sem byggjast á áherslunum þremur. Í september árið 2019 báðu samstarfsráðherrar Norðurlanda Norðurlandaráð um að leggja fram tillögur að markmiðum fyrir framkvæmdaáætlanirnar. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fjallaði um málið í desember og samþykkti m.a. að leggja til skipan ráðherranefndar um samgöngumál, norrænt samstarf um rafvæðingu og hleðslustöðvar við vegi og hafnir, aðgerðir til að auka tungumálaskilning innan Norðurlanda og til varnar lýðræði og gegn upplýsingaóreiðu og tillögur á sviði jafnréttis, menningar og sjálfbærrar þróunar.

Svíar voru í formennsku í Norðurlandaráði árið 2019. Jessica Polfjärd, þingkona sænska hægri flokksins, gegndi stöðu forseta Norðurlandaráðs fyrri hluta árs 2019. Í maí náði hún kjöri til Evrópuþingsins og var því flokksbróðir hennar, Hans Wallmark, kjörinn forseti í hennar stað á sumarfundi forsætisnefndar ráðsins í júní.

Gyða Valtýsdóttir hlaut tónlistarverðlaunin árið 2019. Mikla athygli vakti þegar sænski umhverfisaðgerðasinninn Greta Thunberg hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs en afþakkaði þau í mótmælaskyni við aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum.

Í skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs er komið víða við og þar er að finna upplýsingar um Norðurlandaráðið, hvenær það var stofnað og hvernig það starfar. Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2019 að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamstarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

Nefndirnar eru forsætisnefnd, þekkingar- og menningarnefnd, hagvaxtar- og þróunarnefnd, sjálfbærninefnd, velferðarnefnd, eftirlitsnefnd og kjörnefnd.

Aðalmenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs árið 2019 voru þau Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður frá þingflokki Framsóknarflokksins, Oddný G. Harðardóttir varaformaður frá þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Árnason frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Ingi Kristinsson frá þingflokki Flokks fólksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir frá þingflokki Miðflokksins. Varamenn voru þau Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir frá Vinstri grænum, Brynjar Níelsson frá Sjálfstæðisflokki, Inga Sæland frá Flokki fólksins, Logi Einarsson frá Samfylkingunni, Willum Þór Þórsson frá Framsóknarflokki og Þorsteinn Sæmundsson frá Miðflokknum. Helgi Þorsteinsson gegndi stöðu ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2019.

Í upphafi árs sátu Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Vilhjálmur Árnason í sjálfbærninefnd, Anna Kolbrún Árnadóttir í þekkingar- og menningarnefnd og Kolbeinn Óttarsson Proppé og Guðmundur Ingi Kristinsson í velferðarnefnd. Guðmundur Ingi sat einnig í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Fyrir Norðurlandaráðsþingið í Stokkhólmi í október færðist Kolbeinn úr velferðarnefnd í sjálfbærninefnd.

Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Steinunn Þóra Árnadóttir sat í stjórn Norræna menningarsjóðsins og sótti fund hennar í Ilulissat á Grænlandi í maí. Vilhjálmur Árnason átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og sótti fundi hennar í Helsinki 15. febrúar og 24. október. Silja Dögg Gunnarsdóttir var aðalfulltrúi Norðurlandaráðs á fundum þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins fram til ársfundar samtakanna í Ósló í ágúst, sem hún sótti, og eftir það er hún varafulltrúi. Oddný G. Harðardóttir var varafulltrúi Norðurlandaráðs hjá sömu samtökum til ársfundarins í ágúst. Hún sótti fund fastanefndar þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Brussel 21. febrúar. Oddný var einnig skýrslugjafi Norðurlandaráðs á fundum þingmannanefndarinnar um norðurskautsmál og sótti fundi samtakanna í Ottawa í Kanada 23.–24. maí og í Bodø í Noregi 18.–20. nóvember. Kolbeinn Óttarsson Proppé var fulltrúi Alþingis hjá þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins. Hann sótti fundi fastanefndar samtakanna í Brussel í febrúar og í Berlín 10.–11. nóvember og ársfundinn í Ósló í ágúst. Kolbeinn fór einnig sem fulltrúi sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs á fund á vegum Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni í Montreal 26.–27. nóvember og á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd 10.–12. desember. Vilhjálmur Árnason fór sem fulltrúi sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs á fund um orkumálastefnu ESB 20. mars í Brussel.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði tíu sinnum á árinu. Til funda deildarinnar var boðið fulltrúum Norðurlandaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Norræna félagsins, Norðurlandaráðs æskunnar, upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd, Norræna hússins og fleiri einstaklingum og samtökum sem tengjast norrænu samstarfi. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, fundaði með Íslandsdeild Norðurlandaráðs á árinu.

Í skýrslu þeirri sem ég mæli fyrir eru upplýsingar um þessa fundi, um helstu umræðuefni og niðurstöður.

Að lokum, forseti, vil ég rétt aðeins segja frá verðlaunum á vegum Norðurlandaráðs. Þau eru bókmenntaverðlaun sem er mikil spenna í kringum og fólk fylgist vel með, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og kvikmyndaverðlaun. Það er alltaf ákveðin hátíð við þing Norðurlandaráðs hverju sinni í kringum þessar verðlaunaafhendingar. Það eru beinar útsendingar í ríkissjónvörpum landanna og listamennirnir nýta það tækifæri oft sem þeir hafa þar til að koma með skilaboð út í samfélögin um alls konar málefni sem liggja þeim á hjarta. Okkar íslensku listamenn sem hafa fengið verðlaun hafa sent út skilaboð sem menn gleyma seint. Þessi stund er mikilvæg og að listamenn nýti þá stund eins og þeir einir kjósa.

Íslendingar fara með formennsku í Norðurlandaráði á árinu 2020 eins og áður sagði og Silja Dögg Gunnarsdóttir er forseti ráðsins og sú sem hér stendur varaforseti. Árið 2020 verður vorþing Norðurlandaráðs haldið dagana 30.–31. mars í Helsinki og aðalþingfundur ráðsins verður haldinn 26.–29. október í Reykjavík.

Forseti. Ég hef þetta ekki lengra en bendi á ítarlega skýrslu sem liggur á vef Alþingis og einnig í prentuðum eintökum frammi í hliðarherbergi. Þar er hægt að fræðast um störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem eru fjölbreytt. Þau eru líka afar mikilvæg sem tenging inn í hin norrænu ríkin.