150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Norrænt samstarf 2019.

557. mál
[12:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Ég hef verið í velferðarnefnd Norðurlandaráðs og eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs í nær eitt ár og er loksins að komast inn í þá miklu vinnu sem þar fer fram. Það kemur mér mjög á óvart hversu virkt allt þetta starf er og hversu marga málaflokka það spannar.

Í velferðarnefnd hefur verið tekið á ýmsum málum og mér er mjög minnisstætt þegar ég fékk að mæla fyrir málefnum fatlaðra á Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi 28.–30. október. Það er eitt af málunum í velferðarnefnd og hefur verið rætt mikið þar. Eins og kom fram þar í málflutningi mínum er grundvallaratriðið í öllum málefnum þess flokks: Ekkert um okkur án okkar. Það er nefnilega meginstefið. Það sem er einnig merkilegt og ég komst að er að velferðarnefnd hafði ekki komið til Íslands, en verður bætt úr því í sumar og við fáum hana hingað í júnímánuði. Hún ætlar að taka á mjög viðamiklum málefnum, tveimur sérstaklega, jafnréttismálum og síðan baráttunni gegn sjálfsvígum. Þetta eru tvö mjög mikilvæg mál og verður ánægjulegt að taka þátt í þeirri umræðu með velferðarnefndinni og hitta alla þá aðila sem til stendur að hitta á Íslandi.

Einu af því merkilegasta sem gert er í sambandi við eftirlitsnefndina kynntist ég og hefur þó ýmislegt komið mér á óvart. Ég skal alveg viðurkenna að í síðustu ferð til Danmerkur, þegar eftirlitsnefndin fór í eftirlitsferð til Svíþjóðar rétt vestan við Málmey til að heimsækja norrænan genabanka, varð ég eiginlega orðlaus. Ég uppgötvaði þarna mjög vel varðveitt leyndarmál. Ég vissi eitt um þennan genabanka, hafði einhvern tímann heyrt í fréttum að hann væri með frægeymslur á Svalbarða þar sem eru hundruð þúsunda eða milljónir fræja sem eru allt norrænar plöntur.

En þetta er bara brot af því, þeir eru að kortleggja þarna dýrastofna og tré líka. Það sem mér fannst eiginlega merkilegast við að koma þangað á þessu tímabili var þegar við fengum að skoða rannsóknastofuna og sjá þar í tilraunaglösum hvað þar væri á ferðinni og þegar við fengum upplýsingar um að það væru íslenskar rauðar kartöflur. Þær eru meðal elstu kartöflutegunda sem hafa komið til Norðurlandanna, komu fyrst til Svíþjóðar og svo hingað. Þetta var mjög merkilegt. Þarna eru þeir líka að framleiða kartöflufræ og alls konar fræ sem hægt er að kaupa á netinu í gegnum þessa stofnun. Ég ætla að fara aðeins betur ofan í þetta en þetta þarf að upplýsa. Það sem fer þarna fram er stórmerkilegt og það sem sló mig hvað mest og sem ég þarf líka að athuga með er að þarna eru vísindamenn frá öllum Norðurlöndunum en enginn frá Íslandi. Skýringin sem við fengum var sú að það væri enginn hæfur eða með rétta menntun á Íslandi til að vinna á þessari rannsóknastofu. Ef svo er er það grafalvarlegt mál og þarf sérstakrar athugunar við.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég mun fylgja því eftir sem ég hef verið að vinna við núna undanfarið og gefa betri skýrslur um það síðar. Síðan verður líka merkilegt að vinna með velferðarnefnd hér heima í sumar og vonandi kemur eitthvað út úr því samstarfi eins og hingað til hefur komið. Ég átta mig á að þetta skilar okkur ótrúlegum upplýsingum en þeim upplýsingum verðum við sem erum í þessum nefndum að miðla áfram til að það skili sér. Þess vegna þurfum við að vera á tánum og upplýsa um allt það sem þar fer fram. Þetta er stórmerkilegt samstarf sem fer fram á Norðurlöndum og ég verð að segja alveg eins og er að það skilar okkur Íslendingum alveg ótrúlegum upplýsingum. Það dugir þó skammt ef við nýtum okkur það ekki. Það er það sem við þurfum að gera næst.