150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Vestnorræna ráðið 2019.

534. mál
[13:32]
Horfa

Frsm. ÍVN (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Ég flyt hér skýrslu eða útdrátt úr starfi Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2019 og vek á því athygli að skýrslan í heild sinni er til á rituðu máli á vef þingsins og hér í fórum þingsins sömuleiðis.

Meðlimir ráðsins hittast tvisvar á ári, annars vegar í tengslum við þemaráðstefnu ráðsins að vetri og hins vegar ársfund að hausti.

Helstu markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila.

Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt. Það mun vera svo að Vestnorræna ráðið er með elstu þingmannasamtökum á norðurslóðum.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins tók virkan þátt í starfi ráðsins á árinu 2019 og vann einnig að framgangi vestnorrænna mála á Alþingi. Þemaráðstefna ráðsins var haldin í Norræna húsinu í lok janúar á síðasta ári. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar var staða vestnorrænu landanna í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála. Ráðstefnan var opin almenningi og haldin í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Fyrirlesurum ráðstefnunnar sem komu frá öllum aðildarlöndunum auk fleiri fræðimanna og sérfræðinga varð tíðrætt um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Bent var á að ummerki loftslagsbreytinga væru skýr og að áhrifa þeirra gætti í mun meira mæli á norðurslóðum en annars staðar í heiminum. Ísland, Færeyjar og Grænland stæðu frammi fyrir ólíkum áskorunum af völdum loftslagsbreytinga en öll þyrftu þau að horfast í augu við hækkandi verð á innfluttum matvælum á næstu áratugum.

Talsvert var rætt um hvaða áhrif það gæti haft ef siglingaleið opnaðist frá Asíu til Evrópu og Norður-Ameríku um norðurskautið. Ýmis tækifæri gætu falist í því fyrir Vestur-Norðurlönd en einnig skapaðist hætta á umhverfisslysum og áskoranir varðandi leit og björgun væru augljósar.

Fyrirlesarar greindu sérstaklega stöðu Grænlands, Færeyja og Íslands í alþjóðastjórnmálum og bentu á hernaðarlegt mikilvægi landanna fyrir stórveldin í seinni heimsstyrjöldinni og kalda stríðinu. Þetta hernaðarlega mikilvægi hefði dvínað á síðustu áratugum en í ljósi breyttra aðstæðna á norðurslóðum gæti það snúist að einhverju leyti við. Bent var á að löndin gætu aukið samstarf sitt í samskiptum sínum við stórveldi eða í tengslum við þjónustu við flutningaskip. Öll hefðu þau hagsmuni af því að stuðla að verndun auðlinda hafsins og viðkvæmrar náttúru norðurslóða.

Samhliða þemaráðstefnunni var haldinn innri fundur ráðsins í Reykholti í Borgarfirði þar sem ráðsmeðlimir ræddu um starf ráðsins, tilgang og markmið. Í umræðum var m.a. haft á orði gagnsemi þess að móta skýra, afgerandi og sameiginlega stefnu Vestnorræna ráðsins í helstu málum sem unnt væri að vísa til í samskiptum við utanaðkomandi aðila, t.d. Norðurlandaráð og Evrópuþingið. Þá kom fram nokkur áhugi á að auka samstarf Vestnorræna ráðsins við nágranna, t.d. í Norður-Skotlandi, Núnavút í Kanada og strandsamfélögum í Noregi. Stungið var upp á því að Vestnorræna ráðið ætti frumkvæðið að auknu samstarfi, til dæmis með því að halda þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í einu nágrannalandanna. Það bíður nánustu framtíðar að ráða fram úr þessum atriðum og vangaveltum.

Virðulegi forseti. Vestnorræna dagsins er minnst þann 23. september ár hvert. Tilgangurinn með því að gera sér þennan dagamun er einfaldlega að ýta undir samvinnu og samkennd milli nágrannalandanna þriggja, Færeyja, Grænlands og Íslands. Þessi dagur, haustjafndægur, mun hafa orðið fyrir valinu til að marka vestnorræna sögu og menningu á Vestur-Norðurlöndunum. Dagurinn er haldinn hátíðlegur í öllum þremur löndunum á sama tíma og utanumhald í höndum mennta- og menningarmálaráðuneytis hvers lands. Um framkvæmdina hér heima sáu að þessu sinni Norræna húsið, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Norræna félagið og Vestnorræna ráðið og saman buðu þessir aðilar til málstofu í Veröld – húsi Vigdísar þar sem fólk úr ólíkum geirum kynnti samvinnu- og rannsóknarverkefni með vestnorrænni áherslu. Þar flutti formaður Íslandsdeildar lítið innlegg. Eftir málstofuna var svo boðið til hátíðlegrar móttöku í Norræna húsinu með listasýningum, leiðsögn og síðast en ekki síst, vel útilátnum vestnorrænum veitingum.

Ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn í Inatsisartut, grænlenska þinginu, í lok október, og hafa þá öll aðildarlöndin haldið ársfund einu sinni í þinghúsi sínu. Þetta var gert til reynslu og hafið hér í Reykjavík í Alþingishúsinu fyrir ríflega þremur árum og hefur gefist allvel. Það er óvíst hvort áframhald verður á þessu en næsti ársfundur verður haldinn hér í Alþingishúsinu. Ráðherrar frá Grænlandi og Íslandi tóku þátt í leiðtogafundi af þessu tilefni í Nuuk sem bar yfirskriftina „Vestur-Norðurlönd og hafið“.

Ársfundurinn samþykkti tvær ályktanir sem sendar voru til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar. Í þeirri fyrri eru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til þess að kanna möguleika á niðurgreiðslu flugferða ungmenna milli landanna þriggja. Í ályktuninni kemur fram að fyrirkomulagið gæti verið byggt upp á svipaðan hátt og hið evrópska Interrail og myndi auka möguleikana á að ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum gæti heimsótt hvert annað og kynnst menningu og tungumáli nágranna sinna. Það verður að segjast eins og er að Vestnorræna ráðið hefur verið dálítið upptekið af því að fjalla um málefni ungs fólks og hvernig við getum hnýtt ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum betur saman í leik og starfi, í námi og jafnvel íþróttum. Í annarri ályktuninni er kallað eftir því að ríkisstjórnirnar í þessum löndum stofni umhverfisverðlaun hafsins. Með því yrði athygli vakin á alþjóðavísu á mikilvægi sjálfbærra veiða og verndunar hafsins og auðlinda þess. Fyrir Alþingi liggja nú tvær þingsályktunartillögur til meðhöndlunar sem byggðar eru á þessum ályktunum Vestnorræna ráðsins.

Sá sem hér stendur var á fundinum í Grænlandi kjörinn formaður Vestnorræna ráðsins fram að næsta ársfundi, en aðildarlöndin skiptast á að fara með formennskuna, eitt ár í senn.

Vestnorræna ráðið stóð fyrir tveimur málstofum á Hringborði norðurslóða, Arctic Circle, í Reykjavík í október, annars vegar um hagsmuni Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum og hins vegar um verndun smárra tungumála á norðurslóðum. Auk þess var mikil athygli á Grænlandi á ráðstefnunni og nokkrar málstofur um grænlensk málefni. Það helgaðist að hluta til af þeim ummælum sem forseti Bandaríkjanna viðhafði um framtíð og eignarhald á landinu græna, Grænlandi. Það ár, árið 2019, var mikið fjallað um þetta efni á vettvangi Vestnorræna ráðsins á sameiginlegum fundum okkar.

Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins, sem samanstendur af formönnum landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja, tók þátt í 71. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í lok október. Samhliða þinginu fundaði forsætisnefnd með ráðherrum Vestur-Norðurlanda og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Á fundunum bar hæst þær áskoranir sem tungumál vestnorrænu landanna standa frammi fyrir, málefni hafsins og umhverfismál á norðurslóðum. Forsætisnefnd átti við sama tækifæri fund með vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda. Sá sem hér stendur þakkaði ráðherrunum og skrifstofum þeirra fyrir greinargerðir ríkisstjórnanna til Vestnorræna ráðsins um framfylgd ályktana ráðsins, en þær berast okkur a.m.k. einu sinni á ári fyrir ársfund. Fram kom á fundinum áhugi af hálfu ráðherranna að eiga með sér meira samráð og fleiri samtöl en tíðkast hefur um ályktanir ráðsins, efni þeirra og framkvæmd.

Á þingi Norðurlandaráðs undirrituðu mennta- og menningarmálaráðherrar vestnorrænu landanna ásamt þeim sem hér stendur, fyrir hönd Vestnorræna ráðsins, nýjan samstarfssamning um barna- og unglingabókmenntaverðlaun ráðsins þar sem skerpt er á nokkrum hagnýtum atriðum en verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2002 og verða veitt í haust á sérstökum viðburði í Þórshöfn í Færeyjum.

Þá átti forsætisnefnd ráðsins sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Brussel í desember. Fulltrúar þingnefndarinnar og Evrópusambandsins vöktu máls á aukinni samkeppni milli norðurskautsríkja og áhuga stórveldanna á vestnorrænu löndunum. Kom þar greinilega fram í hvaða stöðu t.d. Grænland er.

Á haustþingi 2019 lagði Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins einnig fram frumvarp um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, en lögin voru samþykkt, okkur í ráðinu til mikillar ánægju, á Alþingi í desember sl. Þetta er sérstaklega gleðilegt efni sem einn af fulltrúum okkar í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hafði frumkvæði að, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir. Þetta gengur út á það að bæði Færeyingar og Grænlendingar fái sama aðgang að fyrirgreiðslu til endurgreiðslu á kostnaði sem verður til vegna kvikmyndagerðar innan EES-landanna. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir bæði Færeyinga og Grænlendinga því að þarna er vaxandi kvikmyndagerð sem við vitum af, sérstaklega í Færeyjum en auk þess vaxandi í Grænlandi, og kvikmyndagerðarfólk veigrar sér auðvitað við að koma til Íslands ef það mun verða kostnaðarmeira en að fara til einhverra annarra landa. Þarna erum við búin að jafna þennan mun og þetta mun hugsanlega líka koma íslensku kvikmyndagerðarfólki til góða, að geta miðlað þekkingu og aukið samstarfs þessara aðila. Það verður spennandi að sjá hvernig vinnst úr þessu.

Virðulegur forseti. Árið 2019 var annasamt en farsælt starfsár í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Í erli dagsins og meðfram þingstörfum leituðust fulltrúar deildarinnar við að styrkja tengslin við þá aðila sem starfa á þessum vettvangi eftir því sem tök voru á. Íslandsdeildin heimsótti þannig bæði sendiskrifstofu Færeyja og Grænlands og átti gagnlegar viðræður við fulltrúa landanna þar. Þá var efnt til fundar með forstjóra Hringborðs norðurslóða, Dagfinni Sveinbjörnssyni, og Ólafi Ragnari Grímssyni, formanni Hringborðs norðurslóða, sem hvatti Íslandsdeildina áfram í sínum verkefnum og sagði m.a. að vel væri hægt að gera Vestnorræna ráðið að lykiláhrifavaldi á norðurslóðum. Ráðið væri samráðsvettvangur landa sem saman réðu yfir miklum hafsvæðum og mögulega gæti Skotland bæst í hópinn, en þar væri norðurslóðastefna í vinnslu. Vestnorræna ráðið myndaði einu formlegu tengslin milli landanna á svæðinu og væri þannig eini vettvangurinn sem gæti talað fyrir hönd kjörinna fulltrúa á svæðinu. Þetta var ánægjulegur fundur og gagnlegur og gott að vita af þessum eldmóði hjá formanni Hringborðs norðurslóða.

Virðulegur forseti. Með vísan til þessarar brýningar og hvatningarorða lýk ég flutningi skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2019.