150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2019.

554. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. ÞEFTA (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Ég kynni hér skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2019.

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og Evrópska efnahagssvæðið, EES, gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.

Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Ég ætla ekki að fara í gegnum alla þætti skýrslunnar heldur stikla á stóru í helstu atriðunum og bendi fólki á að það er mjög áhugavert að lesa skýrsluna í heild sinni vegna þess að þar koma bæði fram áhugaverðir punktar um uppbyggingu og sögu þingmannanefndarinnar en líka um einstaka fundi sem við áttum á árinu.

Árið 2019 áttu sæti í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES Smári McCarthy formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir varaformaður, Brynjar Níelsson, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson. Varamenn voru hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, Halldóra Mogensen, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason og Þorsteinn Víglundsson. Hinn 4. desember 2019 tók Ólafur Þór Gunnarsson úr þingflokki VG sæti Andrésar Inga sem varamaður í Íslandsdeild. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, sem er deildarstjóri alþjóðadeildar. Þá gegndi ég fyrir Íslands hönd formennsku í bæði þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES á árinu 2019, enda er það róterandi fyrirkomulag og formennskan gekk núna um áramótin til Norðmanna.

Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var að venju annars vegar farið yfir þann fjölda ESB-gerða á sviði innri markaðarins sem bíða upptöku í EES-samninginn og hins vegar var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Mikilvægt er að upptaka gerða í samninginn og innleiðing í EES/EFTA-ríkjunum gangi snurðulaust fyrir sig til þess að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda fyrir virkni hans. Ísland hefur bætt árangur sinn á þessu sviði en árið 2018 voru reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála endurskoðaðar með það að markmiði að gera EES-málum hærra undir höfði og auka um leið skilvirkni við upptöku og innleiðingu ESB-gerða. Reglurnar komu til framkvæmda við upphaf 149. löggjafarþings í september það ár þannig að árið 2019 var fyrsta heila árið þar sem nýju reglurnar voru í gildi. Þetta hefur gengið nokkuð vel. Ég rek aðeins betur stöðuna á EES-samningnum síðar, en það má nefna að fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var mjög ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA, eins og reyndar fyrri ár.

EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 29 talsins og taka til 40 ríkja. Á árinu var efnislega lokið við samning við Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja; Argentínu, Úrúgvæs, Paragvæs og Brasilíu. Samningurinn er núna í lagalegri yfirferð og bíður undirritunar. Jafnframt á EFTA í fríverslunarviðræðum við Indland, Malasíu og Víetnam, þó að þær gangi mishratt fyrir sig. Viðræðurnar við Indland hafa staðið yfir í á tíunda ár meðan viðræður við Víetnam hafa gengið mun hraðar fyrir sig. Þá hefur EFTA unnið að uppfærslu á eldri fríverslunarsamningum sem snýst einkum um að víkka út samninga sem takmörkuðust við vöruviðskipti áður fyrr og bæta við öðrum þáttum nútímafríverslunarsamninga á borð við þjónustuviðskipti, hugverkaréttindi, úrlausnir deilumála, opinber innkaup og sjálfbæra þróun. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA, m.a. með því að beita sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Í þessu skyni fór framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA í heimsókn til Suður-Kóreu á árinu 2019 og átti þar viðræður við þarlend stjórnvöld, þingnefndir, stofnanir og hagsmunaaðila um aukið efnahagslegt samstarf EFTA við Suður-Kóreu og þá einkum uppfærslu á fríverslunarsamningi landanna frá 2005. Hluti af hvatanum fyrir þeirri ferð er að Evrópusambandið hefur nýlega uppfært sinn samning við Suður-Kóreu sem tekur fyrir vikið til mun fleiri þátta en áður. Það hefur verið ákveðin hefð að EFTA reyni að halda alla vega í við Evrópusambandið þar sem ekki er hægt að gera hreinlega betur. Má nefna að fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Suður-Kóreu á sínum tíma var í rauninni á undan Evrópusambandinu, það er ekki mjög oft sem það gerist.

Ansi mikið var fjallað um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, hið svokallaða Brexit. Það kom ítrekað til umfjöllunar. Þá var fjallað um framtíðarskipan viðskipta við Bretland eftir útgöngu úr ESB og þar með úr EES-samningnum sem er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ríki EFTA. Bretland er stærsti viðskiptaaðili bæði Íslands og Noregs innan EES. Þrír möguleikar hafa einkum verið nefndir í samhengi við framtíðarskipun þessara viðskipta. Í fyrsta lagi að EFTA-ríkin fjögur gerðu saman samning við Bretland. Í öðru lagi kæmi til greina að EFTA/EES-ríkin þrjú, án Sviss, hefðu samflot um slíkan samning og í þriðja lagi gæti sú staða komið upp að hvert EFTA-ríki fyrir sig myndi gera tvíhliða samning við Bretland. Niðurstaðan mun væntanlega ráðast af því hvers konar samning Bretland og Evrópusambandið gera sín á milli um framtíðarsamband sitt á næstu mánuðum og raunar vorum við í þingmannanefndinni í Brussel fyrr í vikunni þar sem við fengum ágætiskynningu á stöðu mála í ljósi þess að Brexit hefur nú átt sér stað. Ég ætla ekki að fara mikið nánar út í Brexit nema sérstaklega verði óskað eftir því, enda held ég að velflestir séu orðnir alveg hundleiðir á því endalausa máli.

Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefna þróun í alþjóðaviðskiptum og stöðu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, ákvæði um vinnuvernd og sjálfbærni í fríverslunarsamningum, kosningar til Evrópuþingsins, viðskiptastefnu ESB og viðbrögð þjóðþinga við #metoo-hreyfingunni. Ef ég má nefna aðeins varðandi stöðu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem er töluvert áhyggjuefni, þá gerðist það rétt fyrir jól að dómstóll stofnunarinnar varð í rauninni óstarfhæfur. Við dómstólinn eru að jafnaði nokkuð margir dómarar en vegna andstöðu Bandaríkjanna við skipanir dómara, fyrst á Obama-tímabilinu og hefur haldið áfram á valdatíma Trumps, hefur ekki tekist að skipa nýja dómara við dómstólinn. Dómarar eru þar með fastan skipunartíma sem varir í nokkur ár og ef það er ekki hægt að endurnýja tímann þá tæmist hreinlega dómstóllinn að lokum. Það þarf alltaf að lágmarki þrjá dómara til að fá niðurstöður í dómsmálum, þeir mega ekki vera færri en þrír, en núna í desember voru tveir sem kláruðu sinn skipunartíma. Þetta þýðir að Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur eiginlega ekki getu til að greiða úr ágreiningsefnum sem koma upp, hvorki varðandi GATT, GATS og TRIPS-samninga né afleidda samninga þeirra samtaka. Ef ekki verður leyst úr þessu kann þetta að verða á þessu ári eða á komandi árum verulega skaðlegt fyrir í rauninni alþjóðaviðskipti um heim allan. Það er ekki þannig að Bandaríkin hafi verið á móti skipunum á dómurum í einhverjum skemmdarleiðangri heldur snerist þetta um hæfisskilyrði dómaranna að miklu leyti og þeir vildu endurnýja það kerfi ásamt því að setja skýrari reglur utan um starfsemina. Nú er ég kannski kominn heldur djúpt ofan í þetta málefni en þetta skiptir máli. Vandinn hefur verið á undanförnum þremur og hálfu ári að Bandaríkin eru í raun hætt að segja hvað þau nákvæmlega vilja. Vonandi verður leyst úr þessu.

En svo ég komi aftur inn á starfsemi þingmannanefndarinnar sem slíkrar þá var starfsemi hennar með mjög hefðbundnum hætti á árinu 2019. Þingmannanefndin kom tvisvar sinnum saman í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar fundi með þingnefndum, ráðuneytum og stofnunum í Seoul um fríverslunarmál, eins og ég nefndi áður. Formenn landsdeilda þingmannanefndar EFTA áttu fund með lykilsamstarfsaðilum í Evrópuþinginu í kjölfar kosninga til Evrópuþingsins. Þetta var hugmynd sem kom upp á árinu 2018 og við létum verða af henni. Það varð í rauninni til þess að við vorum að byrja að efla samskipti okkar við Evrópuþingið, sem því miður eru stundum heldur gloppótt. Evrópuþinginu hættir pínulítið til þess að gleyma tilvist EES-ríkjanna öðru hverju og það er mikilvægt fyrir þingmannanefnd EES að minna reglulega á mikilvægi okkar í þessu stóra samhengi. Þá kom þingmannanefnd EES að venju tvisvar saman til fundar á árinu.

Ég ætla ekki að rekja einstök efnisatriði allra þeirra funda sem við áttum enda voru þeir fjölmargir og mjög margt sem kom fram á þeim öllum. En í lokin er mikilvægt að setja þetta í samhengi við þá þróun sem er að eiga sér stað á alþjóðavettvangi. Það er vaxandi spenna í alþjóðaviðskiptum, það eru tollastríð í gangi. Það er orðið að mörgu leyti erfiðara að framfylgja þessum hefðbundnu markmiðum ríkja í fríverslun og fyrir vikið er kannski mikilvægara en hefur verið á síðustu áratugum að það sé mjög öflugt starf bæði innan þingmannanefndar EFTA og EES og sömuleiðis hjá EFTA sjálfu sem fjölþjóðlegri stofnun. Það eru svo sem engar sérstakar blikur á lofti hjá þeim. Allt starfið gengur mjög vel og er mjög vel mannað. En það er mikilvægt að Alþingi og íslenska ríkið standi vel að því að styðja við þessa mikilvægu starfsemi, ekki síst þegar við erum að fara út í erfiðar viðræður við ýmis lönd um hlutverk jafnréttis kynjanna, mannréttindamál almennt og aðra þætti sem ekki öll lönd í heiminum eru sammála um að eigi heima innan fríverslunarumræðu. Það er engu að síður eitthvað sem Ísland og sömuleiðis Noregur hafa haldið á lofti, án þess að ég geri lítið úr þætti Sviss og Liechtenstein. Eftir því sem umræða um fríverslun almennt verður erfiðari verður enn þá erfiðara að halda á lofti þessum mannréttindavinklum. Þetta er kannski aðalatriðið sem ég vildi nefna.

Eins og ég sagði áður þá er skýrslan sjálf þokkalega góð yfirferð yfir allt sem var að gerast hjá okkur og ég vona bara að næstu ár verði jafn góð og árið 2019 var. Undir skýrslu nefndarinnar rita Smári McCarthy formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir varaformaður, Brynjar Níelsson, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson.

Ég ætla kannski að taka það fram að ég fór svolítið út fyrir efni skýrslunnar þannig að það er ekki allt sem ég sagði hér endilega frá þessum hv. þingmönnum sem undirrituðu með mér, en skýrslan stendur sem fullkomlega sjálfstætt plagg.