150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2019.

554. mál
[14:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni Íslandsdeilda EFTA og EES fyrir hans framsögu. Hann fór ósköp vel yfir það sem á daga nefndarinnar dreif á síðasta starfsári og kannski ekki ástæða til að fara mikið ofan í það. Mig langaði aðeins að drepa á nokkrum atriðum og eitt af því sem hefur mjög oft komið fyrir á okkar fundum og áður en ég tók til starfa í nefndinni er blessuð Brexit-umræðan. Hún er í sjálfu sér kannski rétt að hefjast því að við vorum að koma af fundi nú á þriðjudaginn þar sem þetta var einmitt rætt, þ.e. næstu skref sem felast í því að Bretar reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu við ESB um einhvers konar samninga. Miðað við þann tíma sem þeir ætla sér til verksins þá myndi ég halda að það gæti gengið brösuglega, a.m.k. miðað við hvernig úrsögnin gekk. Það má gera ráð fyrir því að þessu verði ekki riggað upp, enda kom það nánast í ljós í lok fundarins að jafnvel er gert ráð fyrir að hugsanlega verði einhver einn samningur undirritaður alveg í árslok og síðan stöndum við kannski frammi fyrir því að Bretar verði með svipað fyrirkomulag og Sviss, það er eiginlega það eina sem manni finnst liggja í augum uppi hvað það varðar. En auðvitað skiptir það okkur líka máli, og hinar þjóðirnar sem eru með okkur í þessu samstarfi, hvernig samningar nást þarna á milli, hvert sem framhaldið verður svo hjá okkur.

Á fundinum sem var haldinn í Vaduz í október fengum við Aleen Mcleod sem er skoskur þingmaður á Evrópuþinginu, þar sem hún var einmitt að fara yfir málefni út frá sjónarhóli Skota og hafði miklar áhyggjur af þessum útgöngusamningi og niðurstaðan varð svo kannski akkúrat sú, hvaða áhrif það muni hafa í Skotlandi. Skotar hafa treyst mjög mikið á vinnuafl frá Evrópu og hafði hún einmitt mjög miklar áhyggjur af því hvernig tækist að manna stöður bæði í heilbrigðis- og umönnunargeiranum eftir Brexit.

Á þessum fundi var líka talað um samskipti Sviss og ESB, hvernig brugðist hefði verið við þjóðaratkvæðagreiðslu sem þeir héldu 2014 um að takmarka flæði innflytjenda til Sviss. Það setti nú samskiptin þarna á milli svolítið í uppnám. Við erum auðvitað bundin af þeim samningum sem að þessu lúta. 26% af íbúum í Sviss eru erlendir ríkisborgarar og svo eru aðrir sem sækja vinnu yfir landamærin. Ég hef áhyggjur af því að þetta mál verði t.d. mjög erfitt hvað Bretana varðar, frjáls för og flæði á milli landa. Ég held að það komi líka til með að skipta máli hvernig úr því verður unnið, ekki bara gagnvart okkur heldur gagnvart ESB og öðrum þjóðum því að Bretarnir virðast vera frekar stífir á því.

Á fundinum í Strassborg í mars á síðasta ári var umræða um viðbrögð þjóðþinga við vinnustaðaáreitni og hún fór fram að frumkvæði Íslandsdeildarinnar. Þar var hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson með framsögu og vitnaði m.a. til könnunarinnar hjá Alþjóðaþingmannasambandinu og Evrópuráðsþinginu á umfangi þess, hversu mikið væri um kynferðislega og kynbundna áreitni í evrópsku þjóðþingunum. Það var auðvitað mjög sláandi að 85% þingkvenna, sem tóku þátt í þessari rannsókn, töldu sig hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi í starfi. Hún sagði líka frá því hvernig við stjórnmálakonur á Íslandi tókum þátt í #metoo-hreyfingunni, fór mjög vel yfir það. Ég nefndi líka í þessu sambandi að við ætluðum að reyna að fara vel og ítarlega yfir niðurstöður þessarar könnunar Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins. Ég vona að allir þingmenn og starfsfólk hafi tekið þátt í þessari könnun, hún er kannski eitt af þeim tækjum og tólum sem eiga að hjálpa okkur í því að takast á við það risaverkefni sem þetta er, því miður. Það á líka að vera samanburðarhæft við þessa könnun sem þarna var gerð.

Á þessum fundi var líka rætt um framtíðarstarf þingmannanefndarinnar. Farið var yfir bréfaskipti sem höfðu verið á milli formanna EES og EFTA og Evrópuþingshliðar nefndarinnar. Því var velt upp okkar megin að koma alltaf saman í Strassborg, frekar en að vera að skiptast á. Það var frekar dræm þátttaka síðast þegar við héldum þetta hér á Íslandi og þess vegna veltum við þessu upp, bæði til að fá einhverja til okkar til að flytja erindi og til að geta átt samtal á víðari grunni o.s.frv. Það var ein af þeim hugmyndum sem við ræddum. Niðurstaðan varð sú að eftir síðustu kosningar virðist vera meiri áhugi fyrir því að sinna þessu betur þannig að við fáum í heimsókn í maí þingmenn frá Evrópuþinginu. Ég vona sannarlega að það verði góð þátttaka því að þessi samskipti skipta okkur máli og þau skipta líka máli, eins og ég sagði, bara til að víkka sjóndeildarhringinn, sjá hvað allir eru að gera í þessu samstarfi.

Formaður nefndarinnar kom aðeins inn á það þegar við fórum til Suður-Kóreu til að reyna að þrýsta á stjórnvöld um að uppfæra samninginn. Hann er orðinn ansi gamall. Bandaríkin gerðu samning 2010 sem er mun betri en okkar fríverslunarsamningur. Það má því segja að EFTA-ríkin standi aðeins höllum fæti gagnvart samkeppnisaðilum, bæði frá Bandaríkjunum og eins frá ESB á Kóreu-markaðinum. Við vildum reyna að leggja að þeim að auka markaðsaðgang landanna, bæði fyrir landbúnaðar- og sjávarafurðir, endurskoðaðar upprunareglur, afnám tæknilegra viðskiptahindrana og almennt aukið frelsi til þjónustuviðskipta. Af því að þessi samningur er orðinn svo gamall er ekki ákvæði þar inni um viðskipti og sjálfbæra þróun og þaðan af síður mannréttindavinkillinn sem nú hefur verið bætt í ansi marga samninga og er tekinn inn í alla þá samninga sem eru í uppfærslu.

Við höfðum tækifæri til að ræða ýmis tvíhliða tengsl. Hér á undan var verið að ræða málefni norðurslóða og ég ræddi þau aðeins þarna. Suður-Kórea hefur áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og við þekkjum áhuga þessara þjóða, bæði þeirra og Kínverja og annarra, á norðurskautinu. Það er mikilvægt að við eigum gott samstarf við áheyrnarríkin til þess að gæta hagsmuna norðurskautsins, ég held að það sé mikil þörf á því.

Sumarfundurinn, sem fór fram í Malbun í Liechtenstein, var með aðeins öðru sniði af því að ráðgjafarnefnd EFTA, sem í sitja aðilar vinnumarkaðarins, var einnig á þeim fundi. Það var örlítið annað yfirbragð. Þar var m.a. verið að ræða um viðskipti og sjálfbæra þróun og þar var starfshópur með tillögur um vinnuvernd og sjálfbæra þróun sem hefur í raun verið í öllum samningum síðan 2010. En það var einmitt að undangenginni umræðu síðustu árin þar sem lagt var til að reyna að bæta jafnréttisáherslunum inn í texta sem á að undirstrika skuldbindingar um að virða mannréttindi og lýðræði og allt sem þar er undir. Það hefur verið gagnrýnt að það er eitt að setja eitthvað inn í samninga og annað að reyna að fylgja því eftir en það er a.m.k. til alls fyrst að fá menn til að samþykkja það.

Virðulegur forseti. Tíminn er að verða búinn. Ég tek undir það að það er ánægjulegt að eftir ferðina okkar til Argentínu, þar sem við hittum fulltrúa Mercosur-ríkjanna, sjáum við í land með samning sem ég held að skipti máli og sýnir að sá þrýstingur sem við erum að veita með því að heimsækja þessi lönd er að skila árangri. Það er sannarlega það sem við þurfum að gera.